Parið yfirheyrt í þessari viku

Parið kom til Seyðisfjarðar 8. september sl.
Parið kom til Seyðisfjarðar 8. september sl. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hollenska parið sem situr í gæsluvarðhaldi grunað um stórfellt fíkniefnabrot verður yfirheyrt í þessari viku. Rannsókn málsins gengur ágætlega en er þó á viðkvæmu stigi, samkvæmt lögreglu á Eskifirði.

Fólkið var handtekið á Seyðisfirði 8. september sl. en það hafði komið hingað til lands með Norrænu. Klukkustund eftir að skipið kom til hafnar ók maðurinn bifreið fólksins frá borði og að grænu tollhliði. Parið er grunað um að hafa flutt til landsins c.a 80 kg af MDMA sem falið var í bifreiðinni.

Að sögn Jónasar Wilhelmssonar Jensen, yfirlögregluþjóns á Eskifirði, gengur rannsókn málsins ágætlega en málið sé þó á viðkvæmu stigi. Gæsluvarðhald yfir parinu rann út síðastliðinn miðvikudag og gerði lögregla kröfu um að það yrði framlengt um tvær vikur. Héraðsdómur Austurlands varð við þeirri kröfu og rennur gæsluvarðhaldið því út miðvikudaginn 7. október nk.  

Aðspurður segir Jónas að ekki hafi þótt tilefni til að óska eftir lengra gæsluvarðhaldi en hugsanlega verði gerð önnur krafa um framlengingu þegar að því kemur. Þá segir hann einnig að það standi til að yfirheyra parið í þessari viku en það var ekki yfirheyrt í síðustu viku.  

Frétt mbl.is: Gæsluvarðhaldið framlengt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert