Björgunarstörf á 40 hnúta hraða

„Nú erum við í fyrsta skipti komin með bát sem er yfirbyggður,“ segir Kristján Maack formaður Hjálparsveitar skáta í Kópavogi, um Stefni nýjan bát sveitarinnar. Um byltingu sé að ræða þar sem báturinn er hraðgengt björgunarskip, sérhæft til björgunarstarfa sem eykur úthald og drægni sveitanna. 

Bátasmiðjan Rafnar í Kópavog afhenti sveitinni bátinn í dag en hann er 10 metra langur og er sá fyrsti sinnar tegundar sem smíðaður er hér á landi. Sveitin hefur undanfarin tvö ár unnið að þróun bátsins í samvinnu við Rafnar og gengur sú vinna upp í heildar kaupverð bátsins en söluverðmæti Stefnis er í kringum 60 milljónir króna.

Á dögunum tók Landhelgisgæslan Óðinn í notkun sem er sambærilegur bátur, hannaður og smíðaður hjá Rafnar, en með aðeins minna húsi og er hannaður til eftirlits og löggæslustarfa á meðan Stefnir er björgunar og leitarbátur.

Rafnar ehf. er hugarfóstur Össurar Kristinssonar, stofnanda Össurar hf., en fyrirtækið hefur síðustu 10 ár unnið að þróun, hönnun og smíði á nýstárlegri tegund báta.  Um 30 manns starfa hjá fyrirtækinu í tæplega 6.000 fm húsnæði í Kópavogi.

mbl.is kíkti um borð í Stefni í dag.

Sjá frétt mbl.is: Um borð í nýjum Óðni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert