Urðu innlyksa vegna hlaupsins

Frá Skaftárhlaupi 2006.
Frá Skaftárhlaupi 2006. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Skaftárhlaup eins og þau þekkjast nú hófust árið 1955 en þó eru til heimildir um eldri hlaup. Frá árinu 1955 hafa um fimmtíu jökulhlaup komið í Skaftá, sem jafngildir nær árlegu hlaupi að meðaltali. 

Árið 2000 varð hópur fólks innlyksa í Skaftárdal. Bændur missa oft fé í kjölfar hlaupanna, skemmdir geta orðið á ræktuðu landi, vegir geta farið í sundur og þá geta brýr brostið. 

Hlaup hófst í Eystri-Skaftárkatli í Vatnajökli í fyrrinótt. Veðurstofa Íslands sendi frá sér tilkynningu vegna vatnavár síðdegis í gær og hafa Almannavarnir lýst yfir óvissustigi vegna hlaupsins.

Sér­fræðing­ar á Veður­stofu Íslands eiga von á því að Skaft­ár­hlaups­ins verði vart við Sveinst­inda á morg­un en fylgst er grannt með rennsli ár­inn­ar.

Getur orðið að stórfljóti á sólarhring

Þegar hleypur úr Eystri- eða Vestari Skaftárkatli rennur vatnið um 40 km undir Vatnajökli og síðan 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli við Sveinstindi. Hámarksrennsli í hlaupum úr eystri katlinum hefur mest orðið um 1.500 rúmmetrar á sekúndu. Rennsli Skaftár getur því vaxið í stórfljót á innan við sólarhring.

Skaftárhlaup koma úr svokölluðum Skaftárkötlum í vestaverðum Vatnajökli við það að jarðhiti bræðir jökulinn. Bræðsluvatnið safnast saman undir jöklinum og hleypur fram þegar vatnsþrýstingur er orðinn svo hár að farg jökulsins nær ekki að halda aftur af því. Vatnið rennur þangað sem fyrirstaða er minnst, þ.e í farveg Skaftár.

Urðu innlyksa í hlaupinu árið 2000

Eftir Skaftárhlaup árið 2000 þegar hljóp úr báðum kötlunum sagði Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum í Skaftártungu, í samtali við Morgunblaðið að gífurleg náttúruspjöll hefðu orðið af völdum hlaupanna. Bændur missi ávallt eitthvað fé í kjölfar hlaupanna því það þvælist í aurinn sem áin ber með sér í hlaupum, festist og drepist jafnvel.

Þá brotni mikið af ræktuðu landi og þegar sandurinn sem árin ber með sér fer að fjúka verður einnig tjón. Gísli Halldór sagði einnig að margir vildu hreinlega losna við Skaftá og hlaupin með því að veita henni í Langasjó en þannig yrði hún gerð hluti af miðlunarsvæði Tungnárvirkjunar.

Um sjötíu manns voru í Skaftárdal þegar hlaupið hófst laugardaginn 5. ágúst. Stærstur hluti hópsins en 27 manns voru innlyksa í tæpa viku vegna hlaupsins. Ferja þurfti bíla þeirra og búnað yfir ána með vörubíl en vegurinn fór í sundur í hlaupinu. Hlaup hófst að nýju 13. ágúst en þá hljóp úr eystri sigkatlinum, líkt og nú. Landsskemmdir vegna hlaupsins voru töluvuverðar.

Sprengdi sér leið upp í gegnum jökulinn

Stórt hlaup varð í Skaftá árið 2006 en þá hljóp úr eystri katlinum. Hlaupið er athyglisvert vegna stærðar og sérstöðu þess en rennslið náði mest 636 rúmmetrum á sekúndu í Eldvatni við Ása í gær. Þannig hélst það stöðugt á fjögurra klukkustunda tímabili. Var þetta með allra stærstu Skaftárhlaupum.

Haft var eftir Snorra Zóphóníassyni, jarðfræðingi hjá Orkustofnun, nú hjá Veðurstofu Íslands, að rennslið hefði verið á annað þúsund rúmmetra ofar í ánni en skýringin á því hvers vegna það mikla rennsli kæmi ekki fram neðar í ánni væri sú að vatnsmagnið dreifði sér út í hraunin og færi niður í grunnvatnið.

Sérstaða hlaupsins var þríþætt að mati Odds Sigurðssonar, jarðfræðings hjá Orkustofnun. „Þetta va rí fyrsta lagi eitt af stærstu hlaupunum sem komið hafa í Skaftá og í öðru lagi bar það svo brátt að, að það sprengdi sér leið upp í gegnum jökulinn, langt frá jölkulsporði,“ sagði Oddur í samtali við Morgunblaðið. „Í þriðja lagi fór hlaupið að hluta til, að vísu litlum hluta, í Tungnaá, sem ég veit ekki til að hafi gerst áður.“

Gífurlegt magn af aur fer í úfið hraunið

Gífurlegt magn af aur berst fram í Skaftárhlaupum og hefur hann á síðustu fimmtíu árum fyllt verulega í úfið hraunið sem Skaftá rennur um, bæði í sjálfum hlaupunum og í kjölfar þeirra þegar aurinn fýkur um.

Í Skaftárhlaupum er mikil brennisteinsmengun í lofti nærri upptökum árinnar. Styrkur brennisteinsvetnis hefur mælst mjög hár við upptök Skaftár í hlaupum og getur fólki stafað stórhætta af. Þegar styrkur brennisteinsvetnis er lágur nemur lyktarskyn manna hann auðveldlega en með vaxandi styrk hættir fólk að greina lyktina.

Tvisvar hefur gerst að hlaup hafa komið með fárra daga millibili úr sitt hvorum katli. Þá náði vatnið sem barst út á hraunin mestri útbreiðslu löngu eftir að rennsli var farið að minnka í farvegi. Þetta gerðist í júlí árið 1997 og flæddi þá yfir þjóðveg 1. Vegurinn var þá hækkaður um 1 metra. Ekki vantaði nema 10 sentímetra upp á að það flæddi yfir hann í ágúst árið 2000 en þá hljóp líka úr báðum kötlum og útbreiðsla vatnsins var mikil.

Skaftárhlaup í vexti árið 2005.
Skaftárhlaup í vexti árið 2005. Þorvaldur Örn Kristmundsson
Bændur missa alltaf eitthvað fé í kjölfar hlaupa.
Bændur missa alltaf eitthvað fé í kjölfar hlaupa. Jónas Erlendsson
Frá Skaftárhlaupi 2006.
Frá Skaftárhlaupi 2006. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert