Styttist í aðalmeðferð Chesterfield-máls

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. bankastjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fv. …
Hreiðar Már Sigurðsson, fv. bankastjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður hans. Mynd/mbl.is

Verjendur fyrrverandi stjórnenda Kaupþings lögðu fram greinargerðir sínar í Chesterfield-málinu svonefnda þegar það var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Aðalmeðferð málsins hefst í byrjun desember. Bankastjórnendurnir eru sakaðir um umboðssvik sem hafi kostað bankann 510 milljónir evra.

Þrír dómarar, tveir embættisdómarar og einn sérfróður meðdómandi, munu dæma í málinu en áætlað er að málflutningurinn standi yfir í viku.

Þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fv. bankastjóri Kaupþings og Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður bankans, eru ákærðir fyrir stórfelld umboðssvik og fyrir að hafa valdið Kaupþingi „gríðarlegu og fáheyrðu“ fjártóni, að því er segir í ákæru. Magnús Guðmundsson, fv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er einnig ákærður í málinu fyrir hlutdeild í umboðssvikunum.

Málið hefur stundum verið nefnt Chesterfield-málið í fjölmiðlum en ákæran beinist í raun að lánveitingum Kaupþings til sex félaga sem skráð voru á Bresku jómfrúareyjum árið 2008 en þau námu samtals 510 milljónum evra. Miðað við gengi evru á þeim tíma sem lánin voru veitt námu þau á bilinu 67,3-69,5 milljörðum króna.

Bankastjórnendurnir eru sagðir hafa veitt félögunum sex, Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélögum þeirra, peningamarkaðslán án þess að lánshæfi félaganna hafi verið metið og án þess að samþykki lánanefndar Kaupþings lægi fyrir.

Lánin notuðu félögin til þess að greiða fyrir svonefnd lánshæfistengd skuldabréf (CLN) sem tengd voru skuldatryggingaálagi Kaupþings sem þau höfðu keypt af Deutsche Bank.

Sérstakur saksóknari telur að allt lánsféð sé Kaupþingi glatað. Því séu umboðssvik ákærðu stófelld og sakir þeirra miklar hvernig sem á það sé litið.

Fyrri frétt mbl.is:

Fjártjónið gríðarlegt og fáheyrt

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert