Fjártjónið gríðarlegt og fáheyrt

Hreiðar Már og Sigurður hlutu þunga dóma í Al-Thani málinu …
Hreiðar Már og Sigurður hlutu þunga dóma í Al-Thani málinu í desember. Hreiðar var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi en Sigurður hlaut fimm ár. Þeir áfrýjuðu dómnum til Hæstaréttar og bíða eftir niðurstöðunni. mbl.is/Árni Sæberg

Sérstakur saksóknari segir að fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson hafi með háttsemi sinni valdið bankanum gríðarlegu og fáheyrðu fjártjóni er þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga sem varð til þess að 67 milljarðar glötuðust.

Þetta kemur fram í ákæru embættisins á hendur þremenningunum sem fjölmiðlar hafa fengið afrit af. Hreiðari Má, sem er fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurði, sem er fyrrverandi stjórnarformaður bankans, og Magnúsi, sem er fyrrverandi yfirmaður bankans í Lúxemborg, var birt ákæran sl. þriðjudag. Þetta er í þriðja sinn sem þeir eru ákærðir í tengslum við viðskipti bankans fyrir efnahagshrunið.

Notuðu neyðarlán frá Seðlabankanum til að fjármagna lánveitingar

Í ákærunni kemur m.a. fram að lánin hafi verið veitt á viðsjárverðum tímum í starfsemi íslenskra banka og í miðri alþjóðlegri lánsfjárkrísu. Þá hafi lánin öll verið veitt í evrum þótt staða bankans í erlendri mynt væri orðin erfið og undir lokin svo erfið að bankinn fékk 500 milljóna evra neyðarlán frá Seðlabanka Íslands en hluta af því var varið til að fjármagna síðustu lánveitingarnar sem ákært er fyrir.

Í ákærunni segir, að Hreiðar Már og Sigurður séu ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa 29. ágúst 2008 í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi banka hf. og stefnt fé hans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga og létu bankann veita þremur félögum með takmarkaðri ábyrgð, sem skráð voru á Bresku Jómfrúreyjum, peningamarkaðslán án trygginga. Þá segir að þetta hafi sömuleiðis verið gert án þess að lánshæfi félaganna væri metið og án þess að fyrir lægi samþykkti þar til bærra lánanefnda bankans. 

Peningamarkaðslánin voru samtals að upphæð 130 milljónir evra og voru þau veitt til að félögin Charbon Capital, Holly Beach og Trenvis gætu gert upp lán sem þau höfðu fengið 7. ágúst 2008 frá Kaupthing Bank Luxembourg. Þau lán höfðu verið notuð sem eiginfjárframlög félaganna í félaginu Chesterfield United, sem lagði umrædda fjármuni inn á reikning hjá Deutsche Bank í Lundúnum. Hafði 125 milljónum evra af þeim fjármunum verið varið til að greiða fyrir svonefnt Credit Linked Notes, eða lánshæfistengt skuldabréf, sem tengt var skuldatryggingaálagi Kaupþings banka og 5 milljónum evra verið varið í þókun til Deutsche Bank.

Þá segir, að lán Kaupþings til Charbon Capital, Holly Beach og Trenvis 29. ágúst 2008 hafi verið framlengd tvisvar, fyrst 19. september til 30. september 2008 og síðan 30. september til 13. október 2008. Tekið er fram að þau lán hafi ekki verið greidd til baka og verði lánsféð að teljast Kaupþingi banka glatað. 

Magnús er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Hreiðars Más og Sigurðar með því að hafa ásamt þeim lagt á ráðin um umræddar lánveitingar Kaupþings og hvatt til að lánin yrðu veitt af hálfu Kaupþings til að greiða upp lán Kaupthing Bank Luxembourg til félaganna þótt honum hlyti að vera ljóst að Hreiðari og Sigurði brast heimild til lánveitinganna og að lánin hafi verið veitt án nokkurra trygginga svo veruleg fjártjónsáhætta hlaust af fyrir Kaupþing. Með þessu hafi tjónshættu Kaupthing Bank Luxembourg vegna lánanna komið yfir á Kaupþing banka hf. Gat Magnúsi ekki dulist, í ljósi aðdraganda lánveitinganna og allra aðstæðna, að féð hafi verið greitt úr sjóðum Kaupþings banka með ólögmætum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert