Sporna við félagslegum undirboðum

Vinnumálastofnun, Vinnueftirlit ríkisins, skattayfirvöld og lögreglan hafa komið á fót óformlegum samstarfshópi til að efla eftirlit til að sporna við félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Einnig hafa Vinnumálastofnun, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sammælst um að vinna saman að því að tryggja sem best eftirlit á vinnumarkaðinum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu. „Vinnumálastofnun bendir á að vegna mikillar fjölgunar erlendra starfsmanna á vinnumarkaði muni reyna á eftirlit með vinnumarkaðslöggjöfinni, s.s. lögum um starfsmannaleigur, lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og lög um um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands.“

Bent er á að fyrirtækjum sem sendi starfsfólk tímabundið til starfa á Íslandi sé skylt að veita Vinnumálastofnun yfirlit með tilteknum upplýsingum um starfsemina og um hlutaðeigandi starfsfólk. Þar á meðal hvort það njóti almannatryggingaverndar í heimalandi sínu. Árið 2014 hafi 75 starfsmenn verið skráðir hjá Vinnumálastofnun á þessum forsendum. Það er sem útsendir starfsmenn. Það sem af sé þessu ári hafi hins vegar um 200 verið skráðir hjá Vinnumálastofnun.

Fréttatilkynningin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert