„Varð kjaftstopp og hissa“

Magnús Ver Magnússon
Magnús Ver Magnússon mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Fyrstu viðbrögð voru bara að ég varð kjaftstopp og hissa,“ sagði Magnús Ver Magnússon fyrir Hérðsdómi Reykjavíkur í dag við aðalmeðferð í skaðabótamáli hans gegn íslenska ríkinu. Magnús fer fram á 10 milljónir króna í miskabætur frá ríkinu auk dráttarvaxta og málskostnaðar vegna ólögmætrar meingerðar í hans garð. Ríkið fer hins vegar fram á verulega lækkaðar dómkröfur og að málskostnaður verði felldur niður. Ekki er farið fram á sýknu.

Forsaga málsins er sú að lögreglumaður tilkynnti Magnúsi 21. ágúst 2014 í símtali að lögreglan hefði beitt ýmsum rannsóknarúrræðum í rannsókn sem beinst hefði að honum á sínum tíma. Þar með talið að hlera síma hans, nota eftirfararbúnað í bifreið hans og setja hlustunarbúnað í bifreið sem hann hafði til umráða. Málið snerist um meinta aðkomu Magnúsar að stórfelldum innflutningi á fíkniefnum til landsins. Rannsókninni var að lokum hætt en fylgst var með Magnúsi í þrjú ár.

Dóttir Magnúsar lögð í einelti

Magnús sagði fyrir héraðsdómi að nafn sitt væri vörumerki sem hann byggði afkomu sína á. Hann ræki þannig æfingastöð og sinnti einkaþjálfun auk þess sem hann stæði fyrir ýmsum viðburðum. Þá hefði dóttir hans orðið fyrir einelti sem hafist hefði vegna málsins. Hún hefði þurft af þeim sökum að skipta um skóla. Hún hefði meðal annars verið spurð hvort pabbi hennar væri glæpamaður.

Magnús sagði að ýmsir viðskiptavinir hefðu ennfremur hætt að eiga við hann viðskipti. Að sama skapi hefði orðið erfiðara að fá styrktaraðila að viðburðum sem hann skipulagði. Málið allt hefði þannig haft neikvæð áhrif á bæði fjölskyldulíf hans og afkomu. Ekkert tilefni hefði verið fyrir rannsókninni og hefði hann orðið fyrir tjóni vegna málsins. Því væri farið fram á miskabætur frá ríkinu.

„Eins og hverri annarri gróusögu“

Lögmaður Magnúsar reifaði málið og lagði áherslu á að vinnubrögð lögreglu hefðu verið verulega ámælisverð og ýmislegt í þeim ekki í samræmi við lög og reglur. Fyrir það fyrsta hefði rannsóknin verið að tilefnislausu. Þá hefði málið verið byggt á upplýsingum frá óáreiðanlegum uppljóstrurum „eins og hverri annarri gróusögu“. Slíkt gæti ekki flokkast undir rökstuddan grun.

Með málinu hefði verið brotið gegn grundvallarmannréttindum Magnúsar. Farið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs hans, málshraði hefði verið óhóflega langur. Magnús hefði ekkert gert til þess að kalla yfir sig það óréttlæti sem hann hefði orðið fyrir. Ítrekaði hann gerðar kröfur Magnúsar um 10 milljóna króna miskabætur frá ríkinu auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

Magnús ekki sýnt fram á tjón

Lögmaður ríkisins fór sem fyrr segir fram á að dómkröfur yrðu lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður. Ekki væri farið fram á sýknu af hálfu ríkisins. Hafnaði hann því að rannsóknin hefði verið að tilefnislausu. Lögreglan hefði fengið upplýsingar frá uppljóstrurum sem hún hefði metið áreiðarlegar þar sem Magnús var talinn höfuðpaurinn í stórfelldum innflutningi á fíkniefnum.

Lögmaður ríkisins hafnaði því ennfremur að óhóflegur dráttur hefði verið á rannsókn málsins og lagði áherslu á að aðgerðir lögreglu hefðu verið með heimild dómstóla. Féllst hann á að Magnús ætti rétt á bótum í ljósi þess að rannsókn hefði verið hætt. Krafa hans um bætur væri hins vegar langt út fyrir það sem eðlilegt gæti talist. Ekki síst þar sem hann hefði ekki sýnt fram á tjón.

Frétt mbl.is: Fylgst með honum í tæp þrjú ár

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert