Varnargarðar frá 1962 brustu við Eldvatn

Skaftá í dag.
Skaftá í dag. mbl.is/Rax

Varnargarður sem staðið hefur frá árinu 1962 ofan við Múla við Eldvatn gaf sig í dag vegna hlaupsins í Skaftá. Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði að við það hefði vatnið við brúna yfir Eldvatn við Ása lækkað.

„Við erum búin að opna brúna aftur,“ sagði Víðir. „Þá fáum við vatn á fleiri staði í hrauninu og í gamla farveginn. Við fylgjumst mjög vel með því hvort það hafi einhver áhrif á þjóðveg 1.“ Þegar garðurinn fór léttist þrýstingur á vatninu við brúna mikið og lækkaði yfirborð þess um marga metra. „Menn eru að tala um að þetta sé tvöfalt hlaup á við það sem menn hafi mælt áður,“ sagði Víðir.

Þá segir Oddsteinn Kristjánsson, bóndi á Hvammi, að eystri brúin í Skaftárdal sé í töluverðri hættu. Allt frá árinu 1952 eða 1953 hafi hann ekki séð jafnmikið vatn við brúna, en áin flæðir að hans sögn yfir brúna. Vegurinn í kringum hana sé þar að auki farinn. „Það beljar vatnið yfir hana,“ sagði Oddsteinn, en brúin hafi staðið allt frá þeim tíma sem hann fór að fylgjast með hlaupum frá því um 1950. Hann vildi þó ekki spá um hvort hún myndi standa af sér vatnsflauminn.

Hér að neðan má sjá myndskeið sem Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi, setti inn á Facebook í dag. Í því lýsir Auður því hvernig tún eru farin í kaf og að áin hafi breyst í stórfljót.

Ég hef oft talað um það að ég sakni Hvammsfjarðar.... Held að einhver sé að reyna að færa mér hann hingað austur.

Posted by Auður Guðbjörnsdóttir on Friday, October 2, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert