Andlát: Alfreð Jónsson

Alfreð Jónsson.
Alfreð Jónsson.

Alfreð Jónsson, fyrrverandi oddviti í Grímsey, lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 1. október sl. Hann varð 96 ára.

Alfreð var fæddur á bænum Skútu í Siglufirði 20. maí 1919. Foreldrar hans voru Jón Friðriksson og Sigríður Friðbjarnardóttir. Hann lærði bátasmíði og vann við iðnina í Slippnum á Siglufirði. Alfreð var mikill skíðamaður og sigursæll, sigraði meðal annars í skíðastökki á landsmótinu í Reykjavík 1937 (Thule-mótinu) og Íslandsmótunum á Ísafirði 1939 og Akureyri 1940. Hann var meðal stofnenda Skíðafélagsins Siglfirðings og var þar í stjórn og formaður í mörg ár. Hann annaðist einnig skíðakennslu, meðal annars á Dalvík og í Reykjadal þar sem hann kynntist konuefni sínu.

Hann kvæntist Ragnhildi Stefaníu Einarsdóttur, húsfreyju, frá Einarsstöðum í Reykjadal. Þau stofnuðu heimili á Siglufirði og þar fæddust dætur þeirra fjórar, Hallfríður sem er látin, Áslaug Helga, Guðrún Sigríður og Ásrún Anna.

Fjölskyldan flutti til Grímseyjar á árinu 1957. Þar var Alfreð við barnakennslu, var flugvallarstjóri og oddviti í 25 ár. Þau byggðu sér hús á Básum. Alfreð var frumkvöðull í flugi og samgöngumálum, beitti sér meðal annars fyrir því að koma á áætlunarflugi til Grímseyjar og fyrir hafnarbótum.

Alfreð var fréttaritari Morgunblaðsins í Grímsey. Hann var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Gríms, fyrsti forseti hans og síðar kjörinn heiðursfélagi.

Alfreð og Ragnhildur fluttu til Akureyrar á árinu 1989. Keyptu sér hús þar og fluttu síðar á Dvalarheimilið Hlíð. Þar lést Ragnhildur fyrir tæpum þremur árum. Afkomendur þeirra hjóna eru orðnir rúmlega þrjátíu.

Útför Alfreðs fer fram frá Akureyrarkirkju föstudaginn 9. október, kl. 13.30.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert