1.000 lifrabólgusjúklingar fá lyf

Kristján Þór Júlíusson á blaðamannafundi um átakið í dag.
Kristján Þór Júlíusson á blaðamannafundi um átakið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 1.000 sjúklingar sem með lifrarbólgu C munu fá ný lyf við sjúkdómnum í því sem heilbrigðisráðherra kallar meiriháttar forvarnar- og lýðheilsuátak.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að íslensk heilbrigðisyfirvöld og lyfjafyrirtækið Gilead, sem framleiðir lyfið Harvoni, geri með sér samstarfsamning sem heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, hefur verið falið að ganga frá. Í honum felst að Gilead leggur íslenska ríkinu til lyf fyrir 1.200 manns og í staðinn munu íslenskir heilbrigðisstarfsmenn gefa lyfið og rannsaka virkni þess.

Öllum þeim sem greinst hafa með veiruna verður boðin fræðsla, meðferð og eftirfylgni og er ætlunin að lágmarka þannig hættuna á nýjum tilvikum sjúkdómsins með smiti milli manna. Samhliða meðferðarátakinu fara fram rannsóknir á árangri þess til lengri og skemmri tíma, m.a. sjúkdómsbyrði og áhrifum á langtímakostnað við heilbrigðisþjónustu.

Í dag eru um 1.000 einstaklingar á Íslandi með lifrarbólgu C en árlega greinast 40 til 70 einstaklingar. Unnt er að lækna lifrarbólgu C hjá flestum sjúklingum með viðeigandi lyfjagjöf en sé sjúkdómurinn ekki meðhöndlaður getur hann leitt til vaxandi öramyndunar í lifur, skorpulifrar, lifrarkrabbameins og lifrarbilunar.

Öllum býðst meðferð

„Þetta þýðir það að öllum sem eru smitaðir mun bjóðast meðferð. Það hefur sýnt sig að meðferð með nýjum og öflugum lyfjum læknar langflesta. Það kemur síðan í veg fyrir frekari framgang sjúkdómsins,“ segir Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifralækninga á Landspítala.

„Mikilvægasti þátturinn í þessu verkefni er ávinningurinn sem hlýst af þessu fyrir hvern og einn einstakling sem smitast hefur af sjúkdómnum. Til lengri tíma þá vonumst við til að sjá líka ávinning fyrir heilbrigðiskerfið í heild sinni. Svo er þetta í þriðja lagi mikilvægt forvarnarverkefni. Með því að meðhöndla mjög stóran hóp af sjúklingum vonumst við til að geta stöðvað frekari útbreiðslu sjúkdómsins og hugsanlega upprætt hann í íslensku samfélagi.“

Stefnt er að því að hefja átakið fyrir lok þessa árs. Sjúklingum verður forgangsraðað til meðferðar af viðkomandi sérfræðilæknum Landsspítala. Sigurður segir það liggja í hlutarins eðli að byrjað verði á meðferð þeirra sjúklinga þar sem sjúkdómurinn er lengst fram genginn en áréttar að meðferð þeirra sé þó þegar hafin með öðrum lyfjum. Gerir hann ráð fyrir að meirihluti sjúklinganna hafi hafið meðferð innan tveggja ára.

Enginn kostnaður fyrir sjúklinga

Heilbrigðisráðherra segir starfsfólk Landspítala hafa unnið að samningnum í rúmt ár í hans umboði og segir hann það mikið gleðiefni að þeir séu loks að komast í höfn.

„Uppleggið hjá okkur er það að einstaklingar eigi ekki að bera kost af þessu verkefni. Við ætlum að veita fræðslu, veita meðferð og veita eftirfylgni fyrir þá sem það kjósa. Því verður fylgt eftir með rannsóknum. Þessum einstaklingum mun bjóðast lyfið án endurgjalds og einnig þeim sem ekki taka þátt í rannsóknum.“

Átakið er til þriggja ára og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja til þess 150 milljónir króna á ári sem varið verður til blóðrannsókna og annarrar þjónustu sem tengist meðferðinni.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt, meiriháttar forvarnar- og lýðheilsuverkefni. Við ætlum að reyna að stöðva útbreiðslu og vinna bug á sjúkdómnum hjá þeim sem hafa hann. Þetta er jákvætt alveg sama hvernig á það er litið,“ segir Kristján.

„Stærsti ávinningurinn er ekki í krónum og aurum, stærsti ávinningurinn er hjá því fólki sem þjáist af þessum sjúkdómi. Ef við horfum síðan til heilbrigðiskerfisins þá forðar þetta því á komandi árum frá mikilli sjúkdómabyrði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert