Sagði að móðir drengsins væri látin

Hæstiréttur staðfesti farbann yfir manninum.
Hæstiréttur staðfesti farbann yfir manninum. mbl.is/Brynjar Gauti

Serbneski karlmaðurinn sem grunaður er um smygl á fólki eftir að hafa komið hingað til lands með unglingsdreng sætir farbanni til 30. október nk. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fór fram á að gæsluvarðhald yfir manninum yrði framlengt en féllust hvorki Héraðsdómur Reykjaness né Hæstiréttur á það.

Tilkynning barst til lögreglustjórans á Suðurnesjum frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 20. ágúst sl. vegna tveggja manna en grunur lék á að þeir hefðu ferðast hingað á fölsuðum skilríkjum. Um var að ræða karlmann og unglingspilt og sagði maðurinn að drengurinn væri sonur hans. Við rannsókn kom í ljós að öll skilríki hinna meintu feðga voru fölsuð.

Óskaði maðurinn eftir hæli fyrir sig og drenginn. Í farangri mannsins og drengsins fannst fæðingarvottorðs drengsins og skjal sem virðist gefa manninum heimild frá foreldrum drengsins til að ferðast með hann.

Þar sem í fyrstu var talið að um feðga í hælisleit væri að ræða var ekki óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir manninum. Lögregla sendi í kjölfarið fyrirspurnir til erlendra löggæsluyfirlvalda. Síðdegis sama dag og maðurinn og drengurinn komu bárust upplýsingar um nafn mannsins og að hann sætti komubanni til 1. mars 2017.

Því næst sendi lögregla fyrirspurn til Interpol og kom þá í ljóst að kærði væri grunaður um að hafa numið drenginn á brott og drengurinn væri á lista yfir horfnar manneskjur. Við yfirheyrslur sagði maðurinn meðal annars að barnsmóðir hans væri látin en dró þar síðar til baka.

Sagði hann einnig að hann hefði verið í reglulegu sambandi við drenginn frá því að hann fæddist. Móðir drengsins hefur aftur á móti greint frá því að fjölskyldan hafi ekki kynnst manninum fyrr en árið 2013. Sjálfur hefur drengurinn greint frá því í við skýrslutökur að maðurinn sé ekki faðir hans og hann hafi kynnst honum árið 2010.

Skýringar mannsins á komu hans hingað þykja ótrúverðugar. Sagðist hann vera kominn hingað til að hitta vin sinn og fyrrverandi nágranna sem hann sagði vera íslenskan ríkisborgara. Kvaðst hann þó ekki hafa símanúmer eða heimilisfang hans hér á landi. Í ljós kom að enginn hér á landi er skráður með nafni hins meinta vinar. Þá gaf maðurinn ekki upp rétt nafn drengsins við komuna hingað.

Rannsókn málsins og verður ákæra gefin út í þessari viku. Maðurinn verður ákærður fyrir brot á almennum hegningarlögum, þ.e. fyrir skjalafals og fyrir brot á útlendingalögum, þ.e. að hafa af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðað útlending við að koma ólöglega hingað til lans og hafa í vörslum sínum fölsuð skilríki. Brot mannsins geta varðað allt að átta ára fangelsi.

Frétt mbl.is: Örugglega ekki feðgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert