Nýjustu losunartölurnar þriggja ára

Stóriðja er mesti losunarvaldur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Álver Alcoa Fjarðaáls …
Stóriðja er mesti losunarvaldur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði losar um hálfa milljón tonna af koltvísýringi á hverju ári.

Tafir hafa orðið á því að Evrópulönd skili inn tölum um losun sína á gróðurhúsalofttegundum vegna vandræða með sameiginlegt evrópskt skilakerfi fyrir loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Tölunum átti að skila í apríl en frestur til þess var framlengdur til loka þessa mánaðar. Fyrir vikið eru nýjustu tölur um losun Íslands sem liggja fyrir þriggja ára gamlar.

Á hverju ári eiga ríki heims að skila tölum um losun sína á gróðurhúsalofttegundum frá árinu þar á undan. Nú í vor átti að skila inn tölum fyrir árið 2013 en seinkun hefur hins vegar orðið á því hjá öllum Evrópuþjóðum. Að sögn Þorsteins Jóhannssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, er vandræðum með sameiginlegt skilakerfi sem Evrópulönd komu sér upp um að kenna.

„Við erum í sjálfu sér komin með þessar tölur en þegar við skilum inn í þessu skilaforriti er framkvæmt sjálfvirkt villutékk. Þetta eru þúsundir talna svo við höfum verið hikandi við að gefa þær út sem bráðabirgðatölur sem gætu þá kannski breyst. Við höfum enn sem komið er verið með 2012-tölurnar sem nýjustu tölur,“ segir Þorsteinn.

Samgöngur menga mest á eftir stóriðjunni

Framlengdur frestur vegna vandræðanna rennur út 30. október og segir Þorsteinn að tölurnar um losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum árið 2013 verði birtar opinberlega fljótlega í kjölfar þess. Í grófum dráttum séu engar stórar breytingar á milli áranna 2012 og 2013, aðeins sveiflur upp og niður í einstaka flokkum.

Nettólosun Íslands á gróðurhúsalofttegundum nam rúmum 4,2 milljónum tonnum koltvísýringsígilda árið 2012 sem var svipað og árin tvö á undan. Langstærsti hluti losunarinnar var tilkominn vegna stóriðju en þar á eftir komu samgöngur, landbúnaður og sjávarútvegur.

Nú fellur losun frá stóriðju hins vegar undir sameiginlegt viðskiptakerfi Evrópuríkja með losunarheimildir og samdráttur á þeirri losun er því á samevrópskri ábyrgð. Samgöngur eru því stærsti einstaki þátturinn þar sem íslensk stjórnvöld hafa á forræði sínu að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert