Skólastjórar snúa aftur í kennslu til að bæta kjör sín

Helsta leið skólastjórnenda til að bæta kjör sín virðist vera …
Helsta leið skólastjórnenda til að bæta kjör sín virðist vera að segja upp stöðu sinni og snúa aftur í kennslu. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Ársfundur Skólastjórafélags Íslands sem haldinn var í Reykjanesbæ í dag lýsir þungum áhyggjum vegna framkominna upplýsinga frá einstökum félagsmönnum um að vænta megi uppsagna frá þeim vegna þess skilningsleysis sem er hjá viðsemjendum félagsins.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að samninganefnd skólastjórafélagsins mæti algjöru skilningsleysi og á meðan sitja skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar uppi með aukin verkefni vegna annarra samninga sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert við önnur stéttafélög s.s. Félag grunnskólakennara.

„Nú virðist helsta leið skólastjórnenda til að bæta kjör sín vera að segja upp stöðu sinni og snúa aftur í kennslu.  Við þetta tapast óhjákvæmilega mikilvæg reynsla sem erfitt verður að bæta,“ segir í tilkynningu. 

Fundurinn krefst þess að Samband íslenskra sveitarfélaga ljúki nú þegar kjarasamningi við Skólastjórafélag Íslands svo komið verði í veg fyrir fjöldaflótta úr stéttinni.

Ársfundurinn hvetur þar að auki fjármálaráðherra og ríkisstjórn Íslands til að heimila samninganefnd sinni að gera mannsæmandi kjarasamninga við lögreglumenn strax í stað þess að mæta eðlilegum kröfum þeirra með sinnuleysi og aðgerðum þeirra með hótunum um lögsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert