Fengu ekki upplýsingar

Varðskipið Þór dregur frystiskipið Green Freezer af strandstað.
Varðskipið Þór dregur frystiskipið Green Freezer af strandstað. mbl.is/Albert Kemp

„Við vissum að þetta var bilun í skiptingunni en langaði að vita nákvæmlega hver hún var,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri á sjóslysasviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Nefndin hefur lokið rannsókn á strandi flutningaskipsins Green Freezer í Fáskrúðsfirði í september á síðasta ári.

Skipið var að koma inn til Fáskrúðsfjarðar til lestunar á frystum afurðum. Því var siglt á hægri ferð inn fjörðinn á meðan beðið var eftir hafnsögumanni. Þegar hann var rétt kominn um borð festist aðalvélin í afturábakgír með þeim afleiðingum að skipið sigldi öfugt upp í fjöru fyrir neðan bæinn Eyri.

Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar um óhappið kemur fram að ekki kom leki að skipinu og engin teljandi mengun hlaust af strandinu. Varðskipið Þór dró frystiskipið af strandstað og að bryggju. Talsverðar skemmdir höfðu orðið á stýris- og skrúfubúnaði. Skipið var síðan dregið til Póllands þar sem gert var við skemmdirnar.

Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar að orsök strandsins megi rekja til bilunar í skiptiskrúfubúnaði skipsins. Nefndinni tókst hins vegar ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fá nákvæmar upplýsingar um eðli og ástæður bilunarinnar hjá útgerð skipsins sem skráð er á Bahamaeyjum. Jón segir að ekki hafi verið miklir íslenskir hagsmunir í húfi og þegar upplýsingarnar bárust ekki hafi málinu verið lokað. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert