Stjórnendur launaminni en kennarar

Frá heimsins stærstu kennslustund, nýverið.
Frá heimsins stærstu kennslustund, nýverið. Styrmir Kári

Skólastjórafélag Íslands hefur lýst þungum áhyggjum af því að á meðan félagsmenn starfa við verkefni tengd innleiðingu kjarasamninga grunnskólakennara þá bíði þeirra eigin kjarasamningar á hakanum.

Sumir þeirra eru sagðir telja sér nú betur borgið fjárhagslega í kennslu en sem skólastjórnendur og eru einhverjir sagðir ýmist íhuga uppsögn eða hafi ákveðið að segja upp. Eftir síðustu kjarasamninga grunnskólakennara eru sumir þeirra sagðir hærra launaðir en yfirmenn þeirra.

„Nú er mál að linni,“ sagði Ingileif Ástvaldsdóttir, varaformaður Skólastjórafélags Íslands. „Það hafa margskonar ytri aðstæður tafið gerð kjarasamninga fyrir okkur. Það var beðið eftir tvíþættum kjarasamningum grunnskólakennara, þegar það var búið átti að ganga til samninga við okkur þegar gerðardómur væri birtur og núna er beðið eftir nýju kjarasamningsmódeli frá SALEK hópnum. Fyrir helgi vísuðum við málinu til ríkissáttasemjara.

Ingileif segir skólastjórnendum sárna að samið sé um starfsskilyrði þeirra á sama tíma og ekki sé hægt að ganga frá nýjum kjarasamningi við þá. Hún gerði grein fyrir stöðunni í pistli á heimasíðu Félags skólastjórnenda.

Starf skólastjórnenda er orðið töluvert sérhæft að sögn Ingileifar. Flestir skólastjórar séu með meistaragráðu í kennslustjórnun eða sambærilega menntun auk kennsluréttinda sem eru grunnskilyrði.

Hún segir ljóst að skólastjórnendur hafi ekki margra kosta völ í kjarabaráttu sinni. Þeir hafa ekki verkfallsrétt og erfitt sé að þrýsta á yfirvöld með verkstöðvun þar sem starf þeirra er ekki eins sýnilegt og mörg önnur.

Ingileif hefur haldið úti umfjöllun á twitter um starfið undir myllumerkinu #skólastjórnun.

Ingileif Ástvaldsdóttir, varaformaður Skólastjórafélags Íslands.
Ingileif Ástvaldsdóttir, varaformaður Skólastjórafélags Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert