Búa spítalann undir verkfall

Á Landspítalanum.
Á Landspítalanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 1.600 starfsmenn Landspítalans munu leggja niður störf verði af boðuðu verkfalli SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, og Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ). Verkfallið á að hefjast á miðnætti á fimmtudag, 15. október. Um er að ræða tæplega þriðjung starfsmanna spítalans. Hópurinn sem stefnir í verkfall nú er ívið fjölmennari en stétt hjúkrunarfræðinga á spítalanum.

„Við erum farin að undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir þær aðstæður sem koma upp ef kemur til verkfalls. Við erum því miður orðin vön því að reka spítalann í verkföllum,“ sagði Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. „Við vonum enn að menn nái saman svo það verði hægt að afstýra verkfalli.“

Hún sagði að á verkfallstímum á spítalanum á undanförnum árum hefði verið kappkostað að standa vörð um bráðastarfsemina. Það yrði áfram gert. Sigríður benti á að nú stefndi í að fjöldi starfsmanna á ólíkum sviðum spítalans legði niður störf. Viðbrögðin tækju mið af því við hvað þetta fólk starfaði. Hún sagði alveg ljóst að verkfallsaðgerðir SFR og SLFÍ myndu koma verulega niður á starfsemi spítalans.

„Það er ljóst að við getum ekki gegnt okkar hlutverki til fulls ef aðeins hluti starfsfólksins er í vinnu,“ sagði Sigríður.

Hún sagði að einhver störf væru á undanþágulistum. Sigríður sagði að á spítalanum, líkt og almennt í heilbrigðisþjónustu, starfaði teymi við umönnun sjúklinga. Störf ýmissa fagstétta gætu mögulega skarast á stundum. Almenna reglan væri þó sú að ekki væri gengið í störf annarra fagstétta. „Það er stundum hægt að láta hlutina ganga með öðrum í teyminu, en það verða ekki stunduð verkfallsbrot. Það er alveg víst. Ef ekki eru undanþágur verður að bregðast við því með því að draga starfsemina saman,“ sagði Sigríður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert