Færi lögreglu verkfallsrétt á ný

Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt.
Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt. Júlíus Sigurjónsson

Þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar vilja breyta lögreglulögum og færa lögreglumönnum verkfallsrétt. Þetta kemur fram í frumvarpi Bjarkar Olsen Gunnarsdóttur, Harðar Ríkharðssonar og Helga Hrafns Gunnarssonar.

„Frumvarpið var fyrst flutt á síðasta þingi. Fór það til allsherjar- og menntamálanefndar sem sendi út umsagnir. Bárust átta umsagnir, allar jákvæðar í garð málsins. Í ljósi þess og að jafnbrýnt er nú og þegar frumvarpið var flutt í fyrsta sinn að lögreglumenn endurheimti rétt sinn til að sækja kjarabætur með verkfalli ef nauðsynlegt reynist er það nú endurflutt óbreytt og með upphaflegri greinargerð sem hér fer á eftir,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Í greinargerðinni segir að Landssamband lögreglumanna hafi um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Að þeirra mati hafi lögreglumenn dregist aftur úr þeim viðmiðunarstéttum sem miðað var við í fyrrgreindu samkomulagi sem fól í sér afnám verkfallsréttarins.

Ein ástæða þess sé sú staðreynd að lögreglumenn geta ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn er, til jafns við aðrar stéttir samfélagsins, náist ekki viðunandi niðurstaða í viðræðum um kjaramál.

„Lögreglan sinnir afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar. Sú sérstaða virðist með núverandi fyrirkomulagi vinna gegn stétt lögreglumanna hvað kjaramál varðar frekar en að stuðla að auknum réttindum vegna mikilvægis þeirra í samfélaginu. Eðli málsins samkvæmt yrði verkfallsréttur lögreglumanna háður þeim fyrirvara að ávallt þarf að halda uppi neyðar- og öryggisþjónustu. Hins vegar væri fjöldinn allur af störfum innan lögreglunnar sem eigi að síður væri hægt að leggja niður væri slíkt talið nauðsynlegt til stuðnings kröfum um kjarabætur. Landssamband lögreglumanna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á verkfallsréttinn í kjarabaráttu og hafa ýmis lögreglufélög á landsvísu ályktað í þá veru,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert