„Föstudagsopnun“ hjá ÁTVR á morgun

Eflaust munu margir leggja leið sína í vínbúðirnar á morgun.
Eflaust munu margir leggja leið sína í vínbúðirnar á morgun. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Komi til verkfalls SFR verða allar vínbúðir ÁTVR lokaðar fimmtudag og föstudag og aftur mánudag og þriðjudag. Til þess að koma til móts við viðskiptavini verður svokölluð föstudagsopnun í búðunum á morgun, miðvikudag.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR segir fimmtudaga og föstudaga yfirleitt annasama daga í verslunum ÁTVR. „Þetta eru auðvitað fyrst og fremst óþægindi fyrir viðskiptavininn,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is. „Auðvitað vitum við að fimmtudagar og föstudagar eru annasamir dagar og ætlum við að reyna að koma til móts við viðskiptavini með framlengdum opnunartíma á morgun. Svo verða allar vínbúðir opnar á laugardaginn.“

Að sögn Sigrúnar hefur framlengdi opnunartíminn á morgun verið auglýstur af fyrirtækinu. Samkvæmt hefðbundnum föstudagsopnunartíma verður opið í vínbúðum á höfuðborgarsvæðinu til klukkan 19, nema á Dalvegi, Skútuvogi og Skeifunni en þar verður opið til klukkan 20. Einnig verður framlengdur opnunartími hjá vínbúðum á landsbyggðinni og á laugardag verður opið í öllum vínbúðum, líka þeim sem eru yfirleitt lokaðar á laugardögum.

Sigrún segir lokanirnar vegna verkfalls auka álag á starfsfólki dagana í kring og bætir við að það verði fleira starfsfólk en vanalega í vínbúðunum á morgun. „En það er auðvitað ekkert sjálfgefið að þeir sem vinni fimmtudag og föstudag geti unnið á miðvikudegi,“ segir hún.

Fyrir utan vínið mun dreifing á tóbaki stöðvast í verkfallinu þar sem dreifingamiðstöð ÁTVR verður lokuð. „Við erum búin að reyna að koma þeim skilaboðum til tóbakskaupmanna til þess að vekja athygli á því. Það verður bara engin starfsemi á þessum dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert