Lyklavöld tekin af nemendum

Nemendur í rafmagns- og tölvuverkfræði í prófi í dag þar …
Nemendur í rafmagns- og tölvuverkfræði í prófi í dag þar sem notast þurfti við glervegg á skrifstofu kennara í staðin fyrir töflur í skólastofum.

Verkfallsaðgerðir SFR hafa komið niður á kennslu nemenda við Háskóla Íslands í dag. Nemendur í rafmagnsverkfræði sem áttu að taka próf í dag þurftu meðal annars að flytja sig inn á skrifstofu kennara til að taka prófið í stað þess að nota skólastofur og þá var skipt um skrár í lásum í VRII byggingunni, þar sem bæði eru kennslustofur og lærdómsaðstaða fyrir nemendur. Gera má ráð fyrir að þetta snerti beint 50 til 100 nemendur.

Hilmar Jónsson er einn þeirra sem átti að taka próf í námi sínu í rafmagnsverkfræði í dag. Eins og venjulega átti það að fara fram í stofu einni, en þar sem húsverðir voru í verkfalli var engin stofa opin. Hilmar segir að þar sem bekkurinn sé frekar fámennur hafi verið ákveðið að taka prófið á skrifstofu kennarans. Um hafi verið að ræða munnlegt próf, þar sem nemendur drógu dæmi og áttu að svara þeim. „Þetta breytti því ekki hvernig prófið var tekið,“ segir Hilmar, en bætir við að í stað þess að leysa dæmin með aðstoð töflu var það leyst á vegg hjá kennaranum.

Í gær komust svo nemendur að því að búið var að skipta um skrár í öllum hurðum á VRII byggingunni sem verkfræðinemar á þriðja ári hafa alla jafna lyklavöld að. Hilmar segir að nemendur noti stofurnar þar að jafnaði á bæði virkum dögum og um helgar þegar ekki sé kennsla í þeim. Segir hann að líklegt sé að um 80 manns hafi átt að vera þar í tímum í dag og um 50 manns nýti hana um helgar. Ef allt sé tekið saman sé mögulega um að ræða 100 manna hóp.

Enn sem komið er hafa nemendur ekki heyrt hvort skipt verði um skrár að nýju þegar verkfallshrynunni líkur núna á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka