18 gráðu frostið út úr myndinni

Spáð var 18 gráðu frosti um tíma á Akureyri.
Spáð var 18 gráðu frosti um tíma á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Akureyringar geta andað léttar því spá um mögulegt 18 gráðu frost þar á aðfaranótt mánudags reyndist vera vegna bilunar í staðarspám Veðurstofunnar. Engu að síður mun kólna á landinu næstu daga en ágætisveður fram að því. 

Að sögn Þorsteins V. Jónsson, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, gæti frostið á hálendinu náð 18 gráðum aðfaranótt mánudags en bilun í staðarspám hafi valdið því að slíkum kulda var spáð um tíma í byggð á Norðurlandi. Nú er mesta frosti spáð 12 gráðum í innsveitum fyrir norðan aðfaranótt mánudags og þriðjudags.

Þokkalegasta veður er á landinu þessa stundina, hitinn 0-6 gráður en spáð er éljum fyrir norðan en víða björtu sunnanlands. Hlýjast er á Austfjörðum þar sem hitinn er um sex gráður. Það sé helst á norðanverðu landinu þar sem er við frostmark. Hitastigið á hins vegar eftir að lækka á öllu landinu næstu daga.

„Það er að kólna talsvert og frysta. Það verður aðallega kaldast aðfaranótt mánudags. Á flestum stöðvum verður frost á mánudags- og þriðjudagsmorgni,“ segir Þorsteinn.

Á miðvikudag á hins vegar að hlýna aftur með vaxandi austanátt. Með hlýrra loftinu fylgir væta og má búast við rigningu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert