„Þetta er ekki friðað“

Gísli Steinar Gíslason, stjórnarformaður Landstólpa þróunarfélags, segir áformað að mæta til fundar við fulltrúa forsætisráðuneytisins eftir hádegi á morgun, en deilt er um það hvort hafnargarðurinn á framkvæmdasvæðinu við Tollhúsið í Reykjavík sé friðlýstur eða ekki.  

Til stendur að reisa íbúðar- og verslunarhúsnæði á lóðinni, en Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og settur forsætisráðherra í málinu, féllst hinn 22. október síðastliðinn á tillögu Minjastofnunar um að friðlýsa hafnargarðinn, sem þverar lóðina á hinu svonefnda Kolaportsplani á Austurbakka 2, í heild sinni.

Hafði Minjastofnun skyndifriðaði garðinn í byrjun september síðastliðinn.

„Það er alveg á hreinu að þetta er ekki friðað,“ segir Gísli Steinar í samtali við mbl.is og heldur áfram: „Þeir gripu til skyndifriðunar á sínum tíma vegna þess að þetta töldust ekki vera fornleifar samkvæmt eitthundrað ára reglunni, því veggurinn er frá árinu 1928, en skyndifriðun gildir í sex vikur.“ Hafa stjórnvöld því sex vikur til þess að friðlýsa vegginn kjósi þau slíkt.

„Þessi sex vikna frestur var hins vegar ekki nýttur heldur voru þeir í raun einum degi of seinir að gera eitthvað í málinu,“ segir hann.

Gætu sent jarðýtu á vegginn í dag

Spurður hvort hann telji sig því vera í rétti til þess að rífa niður vegginn kveður Gísli Steinar já við. „Við getum gert það en það er hins vegar ekki markmið okkar að eyðileggja vegginn til þess eins að eyðileggja hann. Við viljum bara finna lausn á þessu máli sem virkar fyrir alla.“

Samkvæmt plani átti fornleifarannsókn að vera lokið á svæðinu í júlí sl. „Það er því búið að halda okkur í algerri óvissu síðan þá. Þetta er risavaxið verkefni sem við erum með í höndunum, eða um 10 milljarðar króna,“ segir Gísli Steinar og bætir við að tafir vegna skyndifriðunar Minjastofnunar hafi kostað félagið tugi milljóna króna.

„Og það er alveg á hreinu að við munum sækja það tjón. Við vinnum nú að því að meta tjónið og um leið hvert við munum sækja það,“ segir hann.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka