„Kerfið er eiginlega of gott til að vera satt“

Nyhavn í Kaupmannahöfn.
Nyhavn í Kaupmannahöfn. AFP

Námsmönnum í Danmörku sem taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fækkaði um 51% milli skólaáranna 2011 til 2012 og 2014 til 2015, úr 876 námsmönnum í 424. Á sama tíma hefur íslenskum námsmönnum sem þiggja námstyrk frá danska ríkinu (d. statens uddannelsesstøtte) fjölgað mikið.

Íslenskir styrkþegar árið 2012 voru 909 samtals. Árið 2013 hafði þeim fjölgað um 106 og árið 2014 fjölgaði þeim um 69 til viðbótar. Það sem af er ári hafa 1.114 íslenskir námsmenn fengið námsstyrk danska ríkisins, þ.e. 31% fleiri en á sama tímabili árið 2012 og tæpum 23% fleiri en allt árið 2012.

Íslenskir námsmenn á SU voru um 2,6 sinnum fleiri en …
Íslenskir námsmenn á SU voru um 2,6 sinnum fleiri en námsmenn á LÍN lánum í Danmörku á síðasta námsári. mbl

Ragna Sigríður Bjarnadóttir meistaranemi í fatahönnun í Royal Danish Acadamy of Fine Arts er ein þeirra sem nýtir sér styrkinn sem í daglegu tali er kallaður SU. Hún segir styrkinn hafa verið eina af helstu ástæðunum fyrir því að hún ákvað að fara í framhaldsnám í Danmörku.

„Við hugsuðum alveg um það að vera ekkert að stressa okkur á vinnu strax og taka kannski LÍN-lán fyrir fyrstu önnina en svo er þetta kerfi bara of gott til að sleppa því,“ segir Ragna  Hún flutti út í haust ásamt kærasta sínum, Þráni Halldóri Halldórssyni sem er í meistaranámi við Copenhagen Business School og hafa þau nú bæði fengið vinnu sem uppfyllir skilyrðin fyrir námsstyrk.

„Það eru mjög margir sem vinna með skóla hérna og í sumum skólum, eins og í CBS til dæmis, er beinlínis gert ráð fyrir að nemendur séu að vinna með námi,“ segir Ragna og bætir við að í skólunum séu reglulega uppákomur sem stuðla að atvinnusköpun fyrir nemendur.

„Kúltúrinn hjá kennurunum er þannig að það er mjög mikill skilningur gagnvart atvinnu nemenda en auðvitað upp að vissu marki. Það er frjáls mæting hjá okkur báðum og maður ákveður sjálfur hvað maður leggur mikið í námið. En af minni reynslu hingað til er vel hægt að sinna bæði.“

Ragna segir það hafa verið „smá vesen“ að finna upplýsingar um hvernig ætti að fara að til að geta fengið námsstyrkinn og að ferlið geti tekið svolítinn tíma. Hinsvegar sé kerfið afturvirkt og nefnir hún sem dæmi að jafnvel þó svo að námsmaður sæki ekki um styrk fyrr en í desember fái hann SU fyrir önnina þar á undan.

Ragna og Þráinn eru bæði í meistaranámi í Kaupmannahöfn.
Ragna og Þráinn eru bæði í meistaranámi í Kaupmannahöfn.


„Stundum er tékkað á fólki, s.s. hvort það sé ennþá að vinna nógu mikið og fólk sem hefur ekki náð tímunum hefur lent í því að þurfa að borga til baka. Samt er hægt að komast hjá því, t.d. með því að vinna mjög mikið mánuðinn eftir að maður fær athugasemd svo tímarnir jafnist út.“

Ragna segir að eðli máls samkvæmt sé SU hagstæðari en lán þar sem ekki þurfi að borga styrkinn til baka. Kostirnir eru þó fleiri. Ólíkt LÍN lánum byggist SU ekki á námsárangri og eiga nemendur því ekki í hættu að missa hann ef próf eða verkefnaskil fara ekki sem skyldi. Styrkurinn er greiddur út á meðan á námi stendur en ekki við lok annar, eins og LÍN lánin og það þýðir að nemendur þurfa ekki að taka bankalán til að hafa í sig og á þar til önnin er úti. Þá má þess geta að ólíkt LÍN lánum njóta nemendur styrkjanna einnig yfir sumarmánuðina.

„Það getur auðvitað verið ókostur að þurfa að vinna með skólanum en það þarf ekki að vera vandamál. Það skiptir engu hver vinnan er, bara að þú fáir laun og borgir skatt. Það er meira að segja hægt að vinna sem verktaki á eigin vegum. Ein vinkona mín er í fjarvinnu hjá fyrirtæki á Íslandi en hún fær samt styrkinn. Maður endar í rauninni með ca. 200 til 250.000 í ráðstöfunartekjur eftir skatt á mánuði af því að vera á SU sem útlendingur. Það eru hátekjumörk auðvitað og fólk þarf að passa sig á þeim, sérstaklega yfir sumarið þegar flestir vinna aðeins meira en þá getur maður bara sleppt styrknum í einn mánuð í staðinn,“ segir Ragna.

„Kerfið er eiginlega of gott til að vera satt og töluvert betra heldur en LÍN.“

Lánþegum LÍN hefur fækkað í 26 löndum og fjölgað í …
Lánþegum LÍN hefur fækkað í 26 löndum og fjölgað í 16. mbl

Vinnum ekki gegn spekileka

Aukin aðsókn íslenskra námsmanna í námsstyrki danska ríkisins útskýrir þó ekki fyllilega fækkun lánþega LÍN í landinu sem er mun meiri en fjölgun styrkþega. Heildarfjöldi lánþega LÍN erlendis lækkaði um 20% milli skólaáranna 2011-2012 og 2014 til 2015*. Á sama tíma fækkaði lánþegum LÍN erlendis í 26 löndum og fjölgaði í 16. Í þremur löndum hefur fjöldi lánþega staðið í stað, þ.e. í Kína, Eistlandi og S-Kóreu.

„Námsmönnum er líka að fækka hér á Íslandi,“ segir Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra námsmanna erlendis, sem situr í stjórn LÍN.

„Eftir hrunið brugðust margir við atvinnuleysi með því að fara í nám. Sumir vilja meina að fækkun námsmanna komi til þar sem það hefur orðið ákveðin mettun, að kúfurinn sé búinn og að það útskýri fækkunina.“

Hjördís segir ljóst að námsstyrkirnir heilli marga en að eins séu námsmenn varkárari en áður og reyni frekar að vinna með námi. Þó svo að námsstyrkirnir séu himnasending fyrir marga íslenska námsmenn hefur Hjördís áhyggjur af viðbrögðum íslenskra yfirvalda við fækkun lánþega. Segist hún gera ráð fyrir að framlög til LÍN verði lækkuð í takt við fækkun lánþega og það geti heft möguleika fólks á því að fara í nám erlendis.

„Ég er hrædd um að Danirnir finni einhverja leið til að loka fyrir þetta. Mér finnst hætta á skammtímahugsun hjá íslenskum yfirvöldum sem þurfa að taka til greina að það geti gerst.“

Hjördís bendir enn fremur á að íslensk yfirvöld séu, ólíkt Dönum, ekki að vinna markvisst gegn spekileka. Nefnir hún stofnunina Copenhagen Capacity sem dæmi um slíka vinnu á vegum Dana en allt starf hennar snýst um að laða erlenda fjárfesta að landinu. Einn liður í því er að tryggja fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu, hágæða vinnuafli og meðal hlutverka stofnunarinnar er þannig að fá erlenda námsmenn til að dvelja þar áfram að námi loknu.

„Þeir eru búnir að hugsa þetta til lengri tíma, þeir þurfa tölvunarfræðinga, verkfræðinga og annað fólk með góða menntun því eftir nokkur ár verður skortur á slíku fólki þar sem þjóðin er að eldast. Þetta er ágætisfjárfesting hjá þeim, þeir gefa námsmönnum SU en þeir ætla líka að halda þeim,“ segir Hjördís.

„Við erum ekki með neina svona stefnu. Það hefur verið þannig að fólk komi heim, það er svo margt sem kallar á okkur, fjölskyldan og öryggið, en er það nóg til lengdar? Við þurfum að bregðast við.“

*Þó svo að umsóknarfrestur sé liðinn hefur ekki verið lokað fyrir útborganir vegna skólaársins 2014 til 2015. Verið gæti að einhverjir námsmenn hafi sótt um en ekki sent viðeigandi gögn til að hljóta lán og gætu tölurnar því enn breyst. Lokunardagur námsársins er 15. janúar 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert