Grjóthrun varð í Dyrhólaey

„Það hrundi talsvert mikið magn af grjóti úr Kirkjufjörubjarginu á Lágey Dyrhólaeyjar,“ segir Jón Björnsson, svæðalandvörður á Suðurlandi, í samtali við mbl.is en hrunið átti sér stað í gær og fór Jón á vettvang í dag til þess að kanna þar aðstæður.

Jón segir fólk mega eiga von á frekara hruni á næstunni.

„Brúnin ofan bjargsins er töluvert mikið sprungin svo við reiknum með því að meira á eftir að hrynja - frekar fyrr en síðar,“ segir hann og bætir við: „Við viljum því hvetja fólk eindregið til þess að halda sig fjarri bjarginu og vera ekki að þvælast um í fjörunni á meðan ástandið er svona.“

Aðspurður segir hann eftir að taka ákvörðun um næstu skref og þá hvort gripið verði til einhverra lokana. „Við eigum eftir að taka ákvörðun um hvað við gerum, þ.e. hvort við lokum einhverjum svæðum eða setjum upp sérstakar viðvaranir.“

Er þetta í annað skipti á þessu ári sem hrynur úr eyjunni, en í vor varð mikið grjóthrun í Háeynni. „Þá færðum við göngustíga og settum upp mun öflugari girðingar. Við erum því að reyna að koma fólki frá brúninni, en hrunið í gær var ekki á hættusvæði líkt og í vor. Bjarghluti eyjunnar er mjög óstöðugur og því verður fólk að hafa varann á sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert