Tæplega 90 mál lögreglu á Twitter

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra tóku þátt í …
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra tóku þátt í Twitter-maraþoni lögreglunnar í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Þórður

Erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en fylgjast mátti með störfum lögreglu á Twitter þar sem fram fór tólf klukkustunda Twitter-maraþon lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Lauk maraþoninu klukkan sex í morgun en þá hafði lögregla tístað um tæplega 90 mál undir myllumerkinu #löggutíst.

Frétt mbl.is: Klifraði upp á svalir Alþingishússins


Fyrsta tístið barst klukkan rúmlega 18 í gær, þar sem tilkynnt var um einstakling sem var smeykur eftir að hafa tekið inn eiturlyf.

Hafði lögregla í ýmsu að snúast. Var m.a. tilkynnt um ökumann að „drifta“ í hringtorgi í Austurbæ, slagsmál í Hafnarfirði og mann sem reyndi að fara í ólæsta bíla í Kópavogi. Allt fyrir miðnætti í gær. 

Þá hafði einstaklingur samband við lögreglu og óskaði eftir aðstoð vegna þess að föt væru að hverfa smátt og smátt úr fataskáp viðkomandi. Benti lögregla tilkynnanda á að kæra eftir helgi.

Einn af hundrað ökumönnum reyndist ölvaður undir stýri

Lögregla fór í nokkur útköll vegna ölvunar og skemmtana, bæði í heimahúsum og á skemmtistöðum borgarinnar. Kom til nokkurra útkalla vegna kvartana undan hávaða í heimahúsum.

Eins var umferðareftirlit hjá lögreglu þar sem hundrað ökumenn voru stöðvaðir. Athugaði lögregla hvort bílstjórar væru undir áhrifum áfengis.

Af þeim 100 sem voru stöðvaðir reyndist einn vera ölvaður undir stýri. Annar var undir mörkum en var látinn hætta akstri.

Þá komu upp nokkur mál hjá lögreglu þar sem leigubílstjórar óskuðu eftir aðstoð. Einn leigubílstjóri kom á lögreglustöð með farþega sem sofnaði í bílnum hjá honum, annar óskaði eftir aðstoð lögreglu eftir að hafa keyrt fram á unga konu sem sat í vegakanntinum döpur og enn annar óskaði eftir aðstoð með ósjálfbjarga og rænulausan farþega. 

Réðst að lögreglumönnum með hníf á Akureyri

Á Norðurlandi eystra réðst eftirlýstur einstaklingur að lögreglumönnum með hnífi er þeir hugðust handtaka hann í heimahúsi á Akureyri. Var maðurinn yfirbugaður með varnarúða, hann fluttur á lögreglustöð og vistaður.

Frétt mbl.is: Réðst að lögreglu með hnífi á Akureyri 

Þá fór maður á lögreglustöðina eftir að bróðir hans og meðleigjandi helypti honum ekki inn í íbúðina. Loks var tilkynnt um fólk í óleyfi í sumarbústað rétt utan Akureyrar. Kom í ljós að um væri að ræða misskilning milli eiganda bústaðarins og var málið því leyst á staðnum.

Þetta var í þriðja skipti sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekur þátt í Twitter-maraþoninu en lögreglan á Norðurlandi eystra tók þátt í fyrsta sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert