Mun reyna á ábyrgð Fréttablaðsins

Frá mótmælum við lögreglustöðina í gær
Frá mótmælum við lögreglustöðina í gær mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, birtir í nótt á Facebook myndband úr íbúðinni í Hlíðunum þar sem nauðganir á tveimur ungum konum eiga að hafa farið fram. Vilhjálmur segir að aftaka kærðu á netinu í gær verði Íslendingum til vansa um aldir alda. Ábyrgðin sé Fréttablaðsins og á þá ábyrgð muni reyna.

„Í Fréttablaðinu í gær, 9. nóvember 2015, var því slegið upp á forsíðu, að íbúð í Hlíðunum hafi verið útbúin til nauðgana. Hér er myndband af íbúðinni. Dæmi nú hver fyrir sig. Engu að síður kýs aðalritstjóri Fréttablaðsins að berja höfðinu við steininn og segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær að Fréttablaðið standi við fréttina. Kærðu neita alfarið sök og styðja gögn málsins og vitnisburðir framburð þeirra. Aftaka kærðu á netinu í gær mun verða íslendingum til vansa um aldir alda. Á því ber Fréttablaðið fulla ábyrgð ásamt hlutaðeigandi mykjudreifurum. Á þá ábyrgð mun reyna,“ skrifar Vilhjálmur á Facebook síðu sína en færslan er opin og hægt að horfa á myndskeiðið þar.

Facebooksíða Vilhjálms

Í frétt RÚV í gærkvöldi kom fram að Kristín Þorsteinsdóttir útgefandi og aðalritstjóri 365, segir ekkert gefa ástæðu til að bera efnisatriði tilbaka. Það sem yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur við hana að athuga sé, að sagt sé að íbúðin hafi verið „sérútbúin" eins og lögfræðingurinn orðar það. Hvergi sé það orð að finna fréttinni, hvorki í dag né í fyrri fréttum um málið. Fréttablaðið hafi staðfestar heimildir fyrir því, að tól og tæki í íbúðinni hafi verið gerð upptæk. Það sem skipti máli sé, að kærur, sem staðfesta fréttirnar, séu komnar fram.

Sjá frétt RÚV í heild

Uppfært 8:45

Á Facebook síðu sinni svarar Vilhjálmur spurningu lesanda um hvort meintur nauðgari hafi fjarlægt þá muni sem rætt er um í frétt  Fréttablaðsins úr íbúðinni á þann veg að lögreglan hafi verið löngu búin að gera húsleit áður en myndbandið var tekið upp.

Hann segir að íbúðin sé ekki sérútbúið nauðgunargreni. Það að eiga hluti sem tengjast bdsm sé ekki refsivert. „Það gerir híbýli fólks ekki að húsnæði útbúnu til nauðgana er það? Önnur hver húsmóðir á Nesinu á slíka hluti eftir 50 shades of grey.“

Hann segir að lögregla hafi haldlagt þrjá hluti: „A)Tölvu B) Gamla svipu sem afi húsráðanda átti. C) Keðjur af boxpúða kærða. Annað var ekki haldlagt og íbúðin er að öðru leyti óhreyfð.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert