Þriggja ára nauðgunardómur mildaður

Landsréttur kvað upp dóminn fyrr í dag.
Landsréttur kvað upp dóminn fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur mildaði dóm Ómars Arnars Reynissonar úr þremur árum í tvö og hálft ár fyrir að hafa nauðgað konu á heimili sínu.

Ómar taldi dóm héraðsdóms byggðan á röngum forsendum. Einhliða frásögn konunnar hafi verið lögð til grundvallar í dómnum en Ómar var ósammála henni.

Skeytti engu um ósk um að láta af háttsemi

Í dómnum segir að Ómar hafi stungið fingri í leggöng konunnar á meðan hún var sofandi. Hún hafi vaknað og tjáð honum að hún vildi þetta ekki og svo sofnað aftur. Þá hafði hann samræði við hana án hennar samþykkis. Hélt hann henni fastri og lét ekki af háttseminni þrátt fyrir tilraunir konunnar til að losa sig og ýta honum burt.

Aðdragandinn var sá að þau hittust heima hjá Ómari og horfðu á sjónvarpið. Svo í kjölfarið hafi þau haft samfarir sem þau samþykktu bæði. Í framhaldi af því hafi brotaþoli sofnað en Ómar var sakfelldur fyrir nauðgun sem átti sér stað eftir fyrrnefndar samfarir.

Ómar sagði þessi atvik ekki hafa átt sér stað. Konan hafi farið heim til sín stuttu eftir samfarirnar sem þau höfðu bæði samþykkt.

Útskýring á Snapchat-skilaboðum ótrúverðug

Framburður konunnar var metinn trúverðugur og fékk stoð í vætti vitna. Framburður Ómars var að auki stöðugur, bæði fyrir lögreglu og dómi. Þrátt fyrir það þóttu skýringar hans á Snapchat-skilaboðum milli þeirra tveggja ótrúverðugar.

Ómar hafði slitið öllum samskiptum við konuna eftir atvikið og svo sent henni nokkrum mánuðum síðar skilaboð. Konan sagðist ekki skilja af hverju hann væri að senda henni skilaboð aftur.

„Mér finnst lágmark að þú biðjir mig afsökunar á því sem þú gerðir mér síðast þegar við hittumst. Ég bað þig ítrekað um að hætta en þú hundsaðir það og hélst áfram gegn mínum vilja,“ sendi konan honum á Snapchat.

Ómar svaraði konunni með því að senda „fyrirgefðu“.

Fyrir dómi sagðist hann hafa verið að biðja hana afsökunar á að hafa samband við hana aftur. Landsréttur sagði það ótrúverðugt ef litið er til efnis þeirra athugasemda sem konan sendi honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert