Baráttan gegn gráa svæðinu

Fólk safnaðist saman á Lýðveldistorginu í París í vikunni til …
Fólk safnaðist saman á Lýðveldistorginu í París í vikunni til að minnast þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni í borginni. AFP

Åsne Seierstad er norskur blaðamaður. Grein bennar birtist í vikunni í norska blaðinu Aftenposten og sænska blaðinu Dagens Nyheter. Á íslensku hafa komið út eftir hana Bóksalinn í Kabúl og 101 dagur í Bagdad. Einn af okkur um Anders Breivik kemur út á íslensku í febrúar.

Grein Åsne Seierstad:

Á föstudag fyrir viku lá brúnt umslag milli dagblaðanna í póstkassanum. Nafnið og heimilisfangið hafði verið skrifað með ritvél á hvítt blað, klippt út og límt á eins og nafnspjald. Bréfið var póstlagt í Skien. Áður en ég sá hvað var skrifað undir nafnið mitt – sérfræðingur í sjúkdómsvæðingaráróðri gegn stjórnarandstæðingum – vissi ég frá hverjum það var.

Bréfið var nýtt innlegg í þráhyggjukennda baráttu hryðjuverkamannsins gegn íslam og fyrir „hinn norræna stofn“. Hann hefur stofnað flokk – Norrænt ríki – og er eini flokksfélaginn, líkt og hann var eini félaginn í Musterisriddurunum. Valið á nafninu virðist innblásið af Ríki íslams – IS.

Í bréfinu barmar hryðjuverkamaðurinn sér yfir því að hann fái ekki að vera í sambandi við „vini, stuðningsmenn og restina af hreyfingunni“. Hann gerði sér í hugarlund að uppreisn myndi fara um Evrópu í kjölfarið á fyrstu árásinni hans. Hann sá fyrir sér að hann myndi leiða bandalag herskárra þjóðernissinna, sem hefðu orðið róttækir í fangelsunum, til „íhaldssamrar byltingar“, sem í eitt skipti fyrir öll myndi hrekja múslimana brott frá Evrópu. Nú situr hann þarna. Ég lagði bréfið frá mér.

Við höfum heyrt þetta áður

Sama kvöld komu fréttirnar frá París.

Öfgafullir íslamistar höfðu framið fjöldamorð. Eins og í Noregi kom árásin innan frá. Búið er að bera kennsl á fimm af hryðjuverkamönnunum átta þegar þetta er skrifað; þeir eru allir franskir ríkisborgarar. Einn ólst upp í banlieue fyrir utan París, annar í félagsbústöðum í Brussel, sá þriðji hefur barist í Sýrlandi. Þeir myrtu samborgara sína og sýndu enga meðaumkvun. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á aðgerðinni. Hryðjuverkamennirnir létu til skarar skríða, innblásnir af haturshugmyndafræði samtakanna: Óæðra fólk skal hreinsað út, sumir eru öðrum æðri, manneskjuna skal steypa í sama mót og það er bara ein rétt trú. Fórnarlömbin eru afmennskuð, kölluð kvikindi og meindýr; við höfum heyrt þetta áður.

Að sögn sjónarvotta sögðu hryðjuverkamennirnir þegar þeir létu skotin dynja að þeir væru að hefna fyrir sprengjuárásir Frakka í Sýrlandi. En þeir réðust ekki á hernaðarmannvirki eða tákn fransks valds þar sem elítan býr eða ferðamennirnir fara. Þeir skutu ekki gagnrýnendur íslams eða lýðskrumara af hægri vængnum, ekki frekar en norski hryðjuverkamaðurinn framdi fjöldamorð á þeim, sem hann sagðist hata, múslimum í mosku. Nei, á báðum stöðum beindist árásin að hinum ungu, hinum framfarasinnuðu, hinum umburðarlyndu.

Þekktu sín fórnarlömb

Því að hryðjuverkamennirnir þekktu sín fórnarlömb. Þeir reiddu til höggs þar sem þeir vissu að sársaukinn yrði mestur – la vie á la francaise – köllum það hversdagslífið. Hverfiskaffihúsið á horninu, fólk á fótboltaleik, tónlistarunnendur. Þeir réðust á 10. og 11. hverfi á hægri bakkanum, þar sem Parísarbúar koma saman á föstudagskvöldi til að borða eða fá sér fordrykk á leið annað, til dæmis tónleika í Bataclan. Þótt hvítum hafi farið fjölgandi í hverfunum, líkt og yfirleitt í miðborg Parísar, hafa þau haldið sínum framfarasinnuðu og fjölþjóðlegu einkennum, segir á vefnum Fusion. Hér búa hinir svokölluðu bóbos – sem eru bæði bóhemar og borgaralegir, hér búa græningjarnir, hér búa hipster-sósíalistarnir. Le Pen, þjóðernissinnarnir og innflytjendagagnrýnendurnir fengu slæma útkomu í þessum hverfum í síðustu kosningum.

Þess vegna voru þeir fullkomin fórnarlömb.

Hryðjuverkamenn reyna alltaf að sundra. Þeir vilja breiða út slíkan ótta að fólk hvæsi á móti, sundrist þannig að tengslin á milli manna veikist. Þannig vilja þeir hrekja samfélagið burt frá grunni sínum og gildum. Langhættulegasti hryðjuverkamaðurinn er sá sem þekkir fórnarlömbin sín.

Franska fótboltalandsliðið og stuðningsmenn þess voru líka hin fullkomnu fórnarlömb. Landsliðið er sennilega best heppnaða aðlögunarverkefni Frakklands. Meirihluti leikmannanna hefur annan uppruna en franskan. Hér eru hinir hvítu ekki valdir úr eins og í atvinnulífinu og á opinberum vettvangi. Í landsliðinu er fullkomið verðleikaræði, aðeins bestu leikmennirnir fá að ganga til leiks í bláu treyjunni. Það er orðið eitt af helstu sameiningartáknum þjóðarinnar og þess vegna var það skotskífa. Hryðjuverkamennirnir óttast fyrst og fremst samheldni okkar. En á Stade de France stöðvaði öryggisvörður manninn í sprengjuvestinu. Parísarbúar vilja hins vegar fæstir slíkan viðbúnað við kaffihús og veitingastaði.

Íslam og hinir vantrúuðu

Ríki íslams veit hvað það vill. Hryðjuverkasamtökin fela ekki markmið sín. Í þeirra eigin miðli, Dabiq, sagði í febrúar á þessu ári að markmiðið væri „eyðing gráa svæðisins“. Baráttan gegn gráa svæðinu hófst, samkvæmt Dabiq, með árásunum 11. september 2001. Þá urðu til tvennar herbúðir, sem mannkyn gat valið á milli: Herbúðir íslams og herbúðir hinna vantrúuðu.

Miðill IS vísar til yfirlýsinga Osama bin Ladens: „Bush sagði sannleikann þegar hann sagði: „Annaðhvort ert þú með okkur eða þú ert með hryðjuverkamönnunum“, það vill segja, annaðhvort fylgir þú krossförunum eða íslam.“ Ríki íslams getur einfaldlega gert málflutning George Bush um öxul hins illa að sínum, í þeirra augum nær öxullinn aðeins til annarra svæða, annarra ríkja.

Líkt og Bush krefst Ríki íslams þess að maður sé með eða á móti. Það sem þeir hata mest og líta á sem áskorun um hólmgöngu er gráa svæðið. 11. hverfi í París er dæmi um það. Hér búa hinir vantrúuðu við hlið múslima, sem í augum IS eru ekki rétttrúaðir, heldur svikarar, loddarar og meðhlauparar. Það sem við köllum veraldlega eða hófsama múslima.

Gráa svæðið er vígvöllur IS. Það er að finna í öllum evrópskum stórborgum. Maður finnur það á milli svarts og hvíts. Milli okkar og þeirra. Milli með og á móti. Það er hægt að segja að svæðið sé grátt, en maður getur líka kallað það litríkt. Föruneyti hins litríka er í huga sumra hrós, en skammaryrði í huga annarra, sem líta á það sem barnaskap, sem muni leiða okkur til glötunar. Rétt eins og hægri öfgamenn hata hið litríka hatar Ríki íslams gráa svæðið. Þetta eru tvær lýsingar á sama hlutnum.

Sama markmið á báða bóga

Öfgamenn á báða bóga hafa sama markmið – sundrungu. Þess vegna ráðast þeir á það samfélag sem virkar. Þeir sem óttast íslam og Ríki íslams eru fullkomnir fjendur hvorir annarra og spegilmyndir, þeir nærast hvorir á öðrum og á sömu hugmyndinni; að við getum ekki búið saman. Það á að losa heiminn við grá svæði og litrík samfélög.

Ríki íslams vill að Evrópubúar óttist múslima, fyllist grunsemdum, snúi baki við þeim, að tortryggni í garð íslams aukist, að það verði erfiðara að vera ungur múslimi í Evrópu. Þá muni fleiri ungmenni verða örvæntingu og firringu að bráð og snúast til bræðralags heilags stríðs. Þetta er yfirlýst markmið og herfræði Ríkis íslams. Það er undir okkur komið hvort áætlunin tekst eða ekki. Áætlun norska íslamshatarans mistókst nefnilega. Samfélagsgreining hans sveik hann. Hryðjuverkið leiddi ekki til árása á þjóðernissinna, sem risu upp í mótmælaskyni, mynduðu sjálfstæðar sellur og gripu til árása, sem áttu að leiða til borgarastríðs.

Samnefnari Ríkis íslams og hugmyndafræði Breivik er hinn hreini fasismi. Það á að setja einn þjóðflokk og trú ofar öllu öðru, það á að útrýma eða undiroka annað fólk. Hjá Ríki íslams eru súnnimúslimar efst, í huga norska hryðjuverkamannsins eru það hvítir kristnir menn. Hann vill útrýma íslam í Evrópu, taka af lífi múslima, sem ekki skipta um trú. Ríki íslams hálsheggur minnihlutahópa í kalífati sínu eða lætur þá lifa upp á náð og miskunn gegn því að borga jizia, trúarskatt. Ríki íslams setur svarta fána á brunarústir kirkja Mið-Austurlanda og sprengir fornar byggingar frá því fyrir tíma íslams. Hér vildi hryðjuverkamaðurinn jafna moskur við jörðu, fjarlægja öll spor eftir íslam, banna arabísku, sómölsku, farsi og urdu og öll múslimsk nöfn. Ríki íslams vill þurrka út heila menningarheima og útrýma hópum fólks, sem það lítur ekki á sem manneskjur heldur stríðsgóss. Mýmörg dæmi eru um að öfgasinnarnir eigi samleið: kvenhatrið, æruleikurinn, píslarvættið, valdaþorstinn.

Bréfið á föstudaginn var fjöldapóstur til margra. Það sýnir að hann er hreinn og beinn rasisti. Þar setur hann fram áætlun um „ríkisrekna hreinræktunarstofnun, sem með hjálp staðgöngumæðra tryggir jafnan aðgang að 100 prósent hreinum börnum fyrir ættleiðingarstofnanir þannig að Norðmenn þurfi ekki lengur að ættleiða börn, sem ekki eru norræn“.

Með hryðjuverki sínu hrifsaði hann brott 77 manneskjur, sem ekki verða bættar. Þetta föstudagskvöld og fram á nóttina hringdu aðrar mæður og feður, systur og bræður, kærustur og kærastar í örvæntingu í farsíma sem ekki var svarað í lengur. Ríki íslams hótar því að hryðjuverkið í París sé bara byrjunin. Það verði fleiri árásir, fleiri saklaus fórnarlömb.

Hverjar eru varnirnar?

Hverjar eru varnir okkar? Fleiri sprengjur í Sýrlandi? Trúum við enn að með sprengjum megi draga úr hryðjuverkum? Ef stríðið gegn hryðjuverkum á að hafa kennt okkur eitthvað er það að orrustuflugvélar virka ekki gegn hryðjuverkum. Nú eru bara slæmar lausnir í Sýrlandi. Og það getur versnað. Án pólitískrar lausnar verður ekki friður. Á Twitter fagna djíhadistarnir fjöldamorðum föstudagsins. Við hlið hryllingsmyndanna frá París stilla þeir myndum af limlestum sýrlenskum börnum, börnum með opinn kvið, kramin höfuð, sótsvörtum, brenndum líkum. Ríki íslams þarf enga aðra réttlætingu en að það á í heilögu stríði, en fyrir þeim, sem hafa samúð með Ríki íslams og standa á þröskuldinum og velta fyrir sér rökum með og á móti, er hægt að réttlæta morðin í París með þessum dauðu börnum. Óvefengjanlegt er að fleiri sprengjur munu leiða til fleiri borgaralegra fórnarlamba.

Hægt er að brjóta Ríki íslams á bak aftur hernaðarlega í Sýrlandi og Írak, að minnsta kosti um stund, en sprengjur stöðva ekki hryðjuverk. Ríki íslams hefur alltaf sagt skýrt að stríðið fyrir kalífatinu verði einnig háð í vestrinu. Forsvarsmenn IS hafa skorað á stuðningsmenn sína að gera árásir á eigin spýtur, keyra bíla inn í mannfjölda, hefja skothríð í verslunarmiðstöðvum, draga fram hníf þar sem margt er um manninn.

Nú þegar Ríki íslams hefur beðið nokkra ósigra í Sýrlandi og Írak og aukin harka er komin í loftárásirnar er ástæða til að óttast að samtökin snúi sér í auknum mæli að hryðjuverkum. Til þess að við áfram tölum um samtökin full ótta, til þess að þau verði áfram aðlaðandi fyrir unga drengi og stúlkur á róttæknibraut, leitandi ungdóm, sem myndi hika við að fylgja samtökum á undanhaldi.

Árásin í París var ekki framin af viðvaningum, hún var vel samstillt og meira bolmagn að baki en hryðjuverkamennirnir átta. Það þarfnast kunnáttu í meðferð sprengiefna að búa til átta sjálfsmorðssprengjuvesti. Hópur þarfnast leiðtoga til að enginn missi trúna, dragi sig í hlé eða kjafti frá. Áætlunin um að reiða til höggs gegn borgaralegu lífi í Frakklandi hefur legið fyrir lengi. Í ágúst gekkst handtekinn vígamaður frá Sýrlandi við því í yfirheyrslu franskra leyniþjónustumanna að Ríki íslams hefði beðið hann að láta til skarar skríða á einum eða fleiri tónleikum í París. Þetta kom fram í frönskum fjölmiðlum í september.

Það verður athyglisvert að sjá hvernig leynþjónustan útskýrir að hún hafi ekki orðið vör við undirbúninginn og hver eftirleikur hryðjuverkanna verður þegar kemur að sýn manna á eftirlit. Eins og stendur er tæknin hliðholl hryðjuverkamönnunum. Dulkóðunarverkfæri og -forrit gera yfirvöldum stöðugt erfiðara fyrir að fylgjast með samskiptum djíhadista.

Á gráa svæðinu er pláss fyrir alla liti

Öryggisverðirnir á Stade de France tóku eftir sjálfsmorðssprengjuvestinu og afstýrðu fjöldamorði. Á grasflötinni fyrir innan lék Frakki, sem undanfarin ár hefur hvað eftir annað þurft að neita því að hann sé íslamisti. Orðrómur var á kreiki um að hann hefði stutt Ríki íslams og jafnvel barist í Sýrlandi, sem hann hefur ávallt neitað. Hvers vegna komu þessar ásakanir fram á hendur Lass Diarra, miðvallarleikmanni, með rætur að rekja til Malí? Hann er trúrækinn múslimi, fastar á ramadan, virðir bænatíma og þegar landsliðið kemur saman biður hann þjónana að fjarlægja vínglasið fyrir framan sig.

Hvorki frönsku né þýsku leikmennirnir fengu að vita af hryðjuverkunum fyrr en eftir leikinn. Þegar leiknum var lokið var París á hnjánum, særð hjartasári. Fjölskylda Diarra hafði einnig orðið fyrir höggi. Frænka hans, Asta Diakite, sem hann kallaði sína stóru stoð og systur, var meðal fórnarlamba hryðjuverkamannanna. Byssukúlur þeirra urðu henni að bana í 11. hverfi. Hinn trúaði Diarra kaus að nota veraldlegt orðfæri þegar hann minntist hennar. Orðum hans lauk svo: „Látum okkur saman verja kærleik, virðingu og frið. Gætum hvert annars. #FranceUnie.“

„Megi Allah veita henni pláss í sinni paradís,“ svöruðu vinir hans á netinu.

Fyrir okkur, sem enn erum á jörðu, er sterkasta vörnin gegn ofbeldi þessi: Að tilheyra í okkar opnu lýðræðisríkjum. Fjölbreytnin, virðingin. Því að Ríki íslams óttast samstöðu okkar meira en það óttast sprengjur. Árásin var bara byrjunin, sögðu þeir. Við skulum segja það sama: Þetta er bara byrjunin. Hér á gráa svæðinu er pláss fyrir alla liti.

Åsne Seierstad.
Åsne Seierstad.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert