Geta ekki mætt kröfum spítalans

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

„Við erum ekki að sjá að við séum að fá það svigrúm við fjárlagagerðina að við getum mætt öllum ýtrustu óskum spítalans - langur vegur frá. Við verðum líka að hafa í huga að mjög stór hluti af því svigrúmi sem var við fjárlagagerðina fer í launabætur,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra við óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í dag.

Kom þetta fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingar, en hún gerði meðal annars nýlegan pistil forstjóra Landspítala að umræðuefni sínu.

„Forstjórinn fer yfir það í pistli sínum að það vanti á fjárlögum yfirstandandi árs 1.400 milljónir króna til viðhalds og nýframkvæmda, en eins og vitað er þá er húsnæðið víða mjög illa farið og mygla þar og í raun algerlega óviðunandi starfsaðstæður. Þá fer forstjórinn yfir það að það þurfi að veita fé vegna sjálfkrafa aukningar í eftirspurn eftir þjónustu vegna hærri aldurs þjóðarinnar,“ sagði Sigríður Ingibjörg og bætti við að afar brýnt sé að auka við fjárlög spítalans.

„Enda er auðséð að sjúkrahúsið getur ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum ef ekki kemur til aukins fjármagns,“ sagði hún.

Kristján Þór sagði það vera rétt að forstjóri Landspítala hefði tekið þetta mál upp við ráðuneytið og rætt þau. „Ég treysti hans mati á því að hann telur kerfið hafa fulla þörf fyrir aukna fjármuni en ég vil sömuleiðis segja að áhersla mín við fjárlagagerðina fyrir 2016 lýtur að fjármögnun heilsugæslunnar að þessu sinni,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert