Gjaldkeri starfsmannafélags dró sér fé

Héraðsdómur Austurlands á Egilsstöðum.
Héraðsdómur Austurlands á Egilsstöðum. mbl.is/Gúna

Gjaldkeri starfsmannafélags á Austurlandi var fyrr í þessum mánuði dæmdur í 8 mánaða fangelsi, þar af 6 skilorðsbundið fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Í ákæru eru meint brot hans sögð nema um 7,9 milljónum króna en brotin ná yfir níu mánaða tímabil. Var maðurinn jafnframt dæmdur til að greiða starfsmannafélaginu 5,8 milljónir í í skaðabætur.

Við ákvörðun refsingarinnar var litið til þess að við brot sín misnotaði ákærði þá trúnaðarstöðu sem hann gegndi sem stjórnarmaður og gjaldkeri starfsmannafélagsins. Um nokkurn fjölda millifærslna var að ræða og umtalsverðar fjárhæðir. „Til mildunar horfir að ákærði hefur frá upphafi játað brot sín að mestu leyti, sé litið til fjárhæða, og hefur með samkomulagi við bótakrefjanda leitast við að bæta fyrir það tjón sem hann olli með því að afsala lausafé, þar á meðal bifreið, til bótakrefjanda, þótt ekki hafi það nægt til að bæta nema hluta þess tjóns sem varð,“ segir m.a. í niðurstöðu dómsins.

Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa hafið störf hjá fyrirtækinu haustið 2012. Sagðist hann þá hafa haft lítið fé milli handa og verið í „djúpri holu ... andlega, líkamlega og fjárhagslega“. Þegar hann var kjörinn gjaldkeri starfsmannafélagsins hafði hann enga fyrri reynslu  af stjórnar- eða gjaldkerastörfum. Hann hafi aldrei séð lög félagsins og ekki verið kunnugt um tilvist þeirra. „Honum hafi ekki verið kynnt sérstaklega hvað fælist í hlutverki gjaldkera eða hvernig standa bæri að ákvarðanatöku fyrir hönd félagsins, en talið sig, sem gjaldkeri, hafa heimildir til að ráðstafa fé félagsins, án aðkomu stjórnar félagsins. Því til stuðnings vísaði ákærði til orða nafngreinds manns sem hann kvað hafa tekið til máls á aðalfundi félagsins og látið þau orð falla að félagið þyrfti að eyða peningum en ekki safna upp digrum sjóðum, því annars væri hætt við því að dregið yrði úr styrkjum fyrirtækisins til félagsins,“ segir í dómnum.

Málið komst upp þegar verið var að vinna ársreikning fyrir félagið. Bókari félagsins kallaði eftir gögnum og kvaðst ákærði þá hafa útbúið reikninga, með því að nota ákveðið reikningsform. Staðfesti ákærði fyrir dómi að hafa búið til ýmsa reikninga, alla keimlíka, sem bornir voru undir hann fyrir dómi. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa reynt að afla reikninga frá viðkomandi fyrirtækjum sjálfum og kvaðst ekki hafa áttað sig á að hann væri að gera neitt rangt með því að gera reikninga í nafni þeirra. Stuttu síðar hafi hann verið kallaður á fund hjá vinnuveitanda sínum og rekinn úr starfi.

Í kjölfarið gerði hann grein fyrir stöðu sinni og högum. Hann kvaðst hafa verið dagdrykkjumaður og lagt stund á fjárhættuspil á þeim tíma sem ákæran tekur til. Hann hafi verið í afneitun um fíknivanda sinn, en tekið á honum að undanförnu. Hann kvaðst ekki geta sagt til um í hvað féð sem hann dró sér hafi farið, en eitthvað af því hafi farið í að bæta skuldastöðu hans.

Hér má sjá dóm Héraðsdóms Austurlands í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert