Ósjálfbjarga af neyslu

mbl.is/Þórður

 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór ásamt sjúkraliði og sótti manneskju sem var ósjálfbjarga vegna neyslu lyfja og fíkniefna á öðrum tímanum í nótt. Viðkomandi var flutt með sjúkrabifreið á spítala. Ekki kemur fram hvernig líðan hennar er núna. 

Um eitt leytið í nótt var haft samband við lögreglu vegna ölvaðs manns sem hringdi ítrekað á dyrabjöllur við litla hrifningu íbúa. 

Á öðrum tímanum í nótt fóru lögreglumenn í útkall vegna hávaða frá íbúð í gömlu húsi en hljóðbært er á milli íbúða. Ekki var um að ræða mikinn hávaða, að sögn lögreglu en íbúarnir sögðust ekki vilja vera með ónæði og slúttuðu skemmtuninni.

 Ölvaður maður var með ónæði í verslun í nótt og endaði á því að reyna stela munum í búðinni. Þegar lögregla mætti á svæðið var maðurinn viðskotaillur og ekki hægt að ljúka málinu á staðnum.

Hann var því handtekinn og fluttur á næstu lögreglustöð. Maðurinn róaðist á meðan þessu stóð og málið afgreitt með vettvangsskýrslu þar sem hann var skýrsluhæfur. Hann viðurkenndi þjófnaðinn. Í ljós kom að hann var með lyfseðil skráðan á annan mann, ekki náðist í viðkomandi svo að seðilinn var haldlagður af lögreglu.

Annar ölvaður maður var með ónæði á fjórða tímanum í nótt en sá rataði ekki heim og bankaði upp á annars staðar en hann ætlaði. Lögregla aðstoðaði manninn við að komast á réttan stað, segir í dagbók lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert