Trúir því að sátt náist

Talsmaður álversins hefur gert að því skóna að því verði …
Talsmaður álversins hefur gert að því skóna að því verði lokað ef verkfall starfsmanna verður að veruleika. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ekki undirbúið eða rætt möguleikann á að álverið í Straumsvík loki fyrir fullt og allt ef af verkfalli starfsmanna þar verður í næstu viku. Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri, segist trúa því að málsaðilar nái saman áður en til verkfalls kemur.

Starfsmenn álversins hefja verkfall miðvikudaginn 2. desember ef samningar hafa ekki náðst fyrir þann tíma. Ekkert hefur þokast í kjaradeilunni fram að þessu en viðræðurnar stranda á kröfu fyrirtækisins um aukna möguleika sína á að bjóða út verk sem fastir starfsmenn sinna nú.

Slökkt verður á kerjum álversins ef verkfall hefst en Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Rio Tinto Alcan á Íslandi, hefur sagt að ef það gerist sé ekki sjálfgefið að kveikt verði aftur á þeim.

Haraldur segir að Hafnarfjarðarbær hafi tæpan hálfan milljarð króna í beinar tekjur af álverinu í Straumsvík á ári, um 300 milljónir í fasteignagjöld og um 150 milljónir í hafnargjöld og þjónustu á höfninni. Þá eru ótaldar útsvarstekjur bæjarins af um 450 starfsmönnum álversins og fjölda þjónustufyrirtækja sem þjónusta það. Ef til þess kæmi að álverið lokaði væri það ekki aðeins áfall fyrir Hafnarfjarðarbæ heldur þjóðarbúið í heild sinni.

„Ef til slíks kæmi væri það náttúrulega mjög alvarleg staða en ég vil bara ekki trúa því að menn nái ekki saman áður en það myndi gerast. Ég trúi því að málsaðilar munu reyna að ná saman og vonandi kemur ekki til þessa,“ segir bæjarstjórinn.

Ekki hafi farið fram undirbúningur eða umræður um mögulega lokun álversins á vegum bæjarins.

„Ég held að þetta sé nú bara hlutur sem maður verður að taka á ef til kemur,“ segir Haraldur.

Samningafundur í kjaradeilunni er fyrirhugaður kl. 15 í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert