„Nú þarf að segja B“

M.a. var rætt um vopnavæðingu lögreglu.
M.a. var rætt um vopnavæðingu lögreglu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsumhverfi og aðbúnaður lögreglu var til umræðu á Alþingi í dag þar. Rætt var um fyrirhugaða 400 milljóna aukafjárveitingu lögreglunnar sem og vopnavæðingu hennar. 

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði fyrirhugaða aukafjárveitingu vera ágætis byrjun. „Þær skila okkur hugsanlega hálfa leið,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn var málshefjandi umræðunnar og sagðist hann fagna aukafjárveitingunni en lagði áherslu á að frekari aðgerða væri þörf. Sagði hann þunga og alvöru ríkja meðal lögreglufólks vegna starfa og starfsaðstöðu sem væri það sem þyrfti að huga að, nú þegar kjarasamningum væri náð.

„Við sögðum A með samningum, nú þarf að segja B.“

Vakti Þorsteinn máls á mikilli fækkun lögreglumanna og hvernig hún stangast á við fjölgun íbúa, farartækja og ferðamanna. Sagði hann að fækkunin hefði dregið úr þjónustu svo að heilu landsvæðin væru án öryggisgæslu auk þess sem aukið álag á mannskap lögreglu hefði leitt til fleiri veikinda og vinnuslysa.

Sagði hann ýmsa brotaflokka sitja á hakanum, verkefni tengd heimilisofbeldi væru í uppnámi sem og vinna gegn mansali og að einnig liti út fyrir að rannsóknir á kynferðisbrotum gætu ekki verið eins vandvirkar og þær ættu að vera.

„Það er óþolandi að þrjótar komist upp með brot vegna ímyndaðs ótta um að auknar rannsóknarheimildir lögreglu muni bitna á borgurum með einhverjum hætti,“ sagði Þorsteinn og hvað vöntun vera á öllum búnaði lögreglu, brynjum, skjöldum, skotfærum og fleiru.

„Við höfum ekki her. Lögregla er það eina sem stendur á milli okkar og þeirra glæpamanna sem hafa farið mikinn í Evrópu undanfarið (...) Það er engin ástæða til að ætla að við munum fara varhluta af því ofbeldi.“

Ríkislögreglustjóri ræður kaupunum

Innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, steig næst í pontu og sagði það forgangsmál hennar og ríkisstjórnarinnar að efla löggæslu í landinu. Tók hún undir nauðsyn þess að fjölga lögreglumönnum og styrkja starfsumhverfi þeirra og sagði milljónirnar 400 einmitt ætlaðar til þessa, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

„Eins og menn þekkja er það meginreglan að lögreglumenn séu ekki vopnaðir við dagleg störf og ekki stendur til að breyta því,“ sagði Ólöf. Ítrekaði hún  þá grundvallarreglu lögreglunnar að aldrei megi ganga lengra í beitingu valds en nauðsynlegt er hverju sinni.

„Það er rétt að benda á að það er ríkislögreglustjóri sem leggur mat á þörf á búnaði og ákveður hverrar gerðar vopn eiga að vera. Það þarf til að mynda ekki atbeina ráðherra fyrir kaupum á vopnum svo lengi sem fjárheimild sé fyrir þeim og þau séu í samræmi við settar reglur.“

Kunna leiðir framhjá lögreglu

Fjöldi þingmanna steig í pontu og talaði gegn vopnavæðingu. Sagði þingmaður Vinstri grænna, Bjarkey Olsen, t.a.m. mikilvægt að hafa í huga að fari lögreglan að vopnbúast muni glæpamennirnir gera það líka og þannig dragi  úr öryggi almennings.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata undirstrikaði mikilvægi gagnsæis í starfi lögreglunnar og sjálfstæðu og óháðu eftirliti. Sagði hann Íslendinga lélega í að sinna aðhaldi og að það þyrfti að laga áður en valdheimildir lögreglu væru auknar.

Í máli flestra þeirra þingmanna sem stigu í pontu kom fram það viðhorf að mikilvægara væri að auka almenna löggæslu í landinu en að vopnbúast.

„Það er akkúrat á svona tímum sem fólk fyllist af ótta,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata, sem sagði óttann oft leiða til þess að fólk missti borgaraleg réttindi sín. „Gleymum því ekki að daglega deyr fjöldi fólks vegna skotvopnaeignar [í Bandaríkjunum], daglega deyr fjöldi fólks úr hungri, daglega er ógn í tilveruna en það þýðir ekki að við eigum að beygja okkur undir þennan ótta.“

Benti Birgitta á að miklar forvirkar rannsóknarheimildir væru fyrir hendi erlendis þar sem voðaverk eiga sér stað þrátt fyrir þær. Nefndi hún Frakkland sem dæmi þar sem heimildir lögreglu voru auknar til muna eftir árásina á Charlie Hebdo í janúar og benti á að þrátt fyrir það hefði ekki verið unnt að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásina fyrr í mánuðinum.

„Þeir sem hyggja á voðaverk kunna leiðir til að fara framhjá lögreglunni sama hvaða heimildir lögregla hefur,“ sagði Birgitta.

„Við skulum ekki tapa okkur í óttanum, styrkjum heldur almenna löggæslu, gleymum okkur ekki og týnum okkur ekki í ótta sem  mun fjara út með tímanum.“

73 þúsund skráð skotvopn

Við lok umræðunnar steig innanríkisráðherra aftur í pontu og hvatti til raunsæis.

„Það eru 73.000 skotvopn skráð í landinu,“ sagði Ólöf. „Það er ekki þannig að það séu ekki vopn á Íslandi, þau geta verið í ýmiskonar notkun, en þetta eru vopn“

Sagði hún að lögreglan yrði að geta brugðist við þeim aðstæðum sem upp koma og að það væri yfirvalda að tryggja að svo væri.

„Við þekkjum það sem vorum hér í þingsölum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákveðið var að beita strangara eftirliti vegna Hells Angels að það bar árangur,“ sagði Ólöf.

Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að gera áætlanir um löggæslu til lengri tíma og sagði það grundvöllinn að yfirveguðum ákvörðunum þegar kæmi að uppbyggingu löggæslu.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra mbl.is/Árni Sæberg
Birgitta Jónsdóttir, flokksformaður Pírata. sagði mikilvægt að týna sér ekki …
Birgitta Jónsdóttir, flokksformaður Pírata. sagði mikilvægt að týna sér ekki í óttanum gegn hryðjuverkum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert