Engin ný markmið í samgöngum

Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á að vera orðinn 10% …
Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á að vera orðinn 10% eftir fimm ár. mbl.is/Ómar

Markmið um að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum í sóknaráætlun í loftslagsmálum ríkisstjórnarinnar er fjögurra ára gamalt. Í henni er þó kveðið á um stuðning við að byggja upp innviði fyrir rafbíla. Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segir ekkert hafa gerst í þessum efnum.

Í stefnumótun sem samþykkt var á Alþingi árið 2011 var stefnt að því að árið 2020 verði hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum orðið 10%. Til að ná því markmiði væri meðal annars hægt að fjölga rafbílum og bifreiðum sem ganga fyrir öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum eða íblönduðu hefðbundnu jarðefnaeldsneyti.

Því er heitið í sóknaráætluninni sem kynnt var í morgun að lögð verði fram aðgerðaáætlun í formi þingsályktunartillögu á vorþingi. Hún miði að því að ná sama markmiði og sett var fyrir fjórum árum árið 2020. Þannig virðist sóknaráætlun gera ráð fyrir endurvinnslu gamallar stefnu fyrri ríkisstjórnar.

„Mér finnst þetta ekki metnaðarfullt og það stendur ekkert um 2030. Þetta er bara gömul og endurnýjuð stefna. Þetta er ekkert nýtt.,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, en 2030 er viðmiðunarár loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna sem hefst í París í næstu viku.

Ekkert hafi verið gert til að ná þessu markmiði fram að þessu, ekki heldur eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, lýsti því yfir á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í fyrra að Ísland stefndi að því að verða kolefnishlutlaust land. Ríkisstjórnin lækkaði meðal annars kolefnisgjald í fjárlögum ársins 2014.

Fyrri frétt mbl.is: Kynna sóknaráætlun í loftslagsmálum

Af þeim flokkum losunar sem falla undir Kyoto-bókunina sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess að framfylgja eru samgöngur helsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þá er ekki litið til stóriðju en losun frá henni er á sameiginlegu forræði landa Evrópu í gegnum viðskiptakerfi með losunarheimildir.

Ekki mikið eftir þegar reyknum er blásið burt

Lítið er um áþreifanleg markmið í sóknaráætluninni, að mati Árna. Eina tilvikið þar sem kveðið sé skýrt á um markmið sé það sem sagt er um samdrátt á losun í sjávarútvegi. Þar er stefnan að dregið verði úr losun um 40% fyrir árið 2030. Að öðru leyti eru ekki nefndar ákveðnar tölur eða tímasetningar í áætluninni.

„Eins og oft er þegar stjórnvöld setja svona fram er fullt af reyk. Þegar búið er að blása honum í burtu er kannski ekki mikið eftir. Fyrsta spurningin er alltaf: hversu mikið magn og hvaða ár? Þeir fara nú svona í kringum það,“ segir Árni.

Ekkert sé fjallað um kolefnisgjald í áætluninni. Meira sé hins vegar fjallað um almenn markmið eins og að styrkja verkefni sem miða að kolefnisjöfnun í ríkisrekstri.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert