Gætu náð markinu hraðar

Rafbílar eru á meðal valkosta við bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti …
Rafbílar eru á meðal valkosta við bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti og losa gróðurhúsalofttegundir. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Ekkert opinbert fé hefur verið lagt í að byggja upp innviði umhverfisvænna bíla frá því að stjórnvöld mörkuðu þá stefnu að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum verði 10% árið 2020. Verkefnastjóri Grænu orkunnar sem mótar meðal annars aðgerðaáætlun í loftslagsmálum segir hægt að ná markinu hraðar.

Ríkisstjórnin kynnti sóknaráætlun sína í loftslagsmálum í gær en þar er áfram lagt upp með markmið sem sett var árið 2011 um 10% hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum árið 2020. Frá þeim tíma hefur þróunin verið hæg og stendur þetta hlutfall nú í 2,5%. Ástæðan er meðal annars sú að engu opinberu fé hefur verið veitt í að byggja upp innviði vistvænna bíla fram að þessu.

Græna orkan, samstarfsvettvangur um orkuskipti sem allar helstu stofnanir, ráðuneyti og fyrirtæki sem hafa áhuga eða hagsmuna að gæta varðandi notkun á vistvænu eldsneyti eiga aðild að, tekur þátt í að móta aðgerðaáætlun sem lögð verður fyrir þingið í vor.

Jón Björn Skúlason er verkefnastjóri Grænu orkunnar. Hann vill ekki taka undir að lítið hafi verið gert frá því að markmiðið var sett fram þó að vissulega hafi mátt gera meira. Ívilnanir fyrir umhverfisvæna bíla hafa til dæmis skilað því að útlit er fyrir að rafbílar verði 2% af nýjum bílum sem seldir hafa verið hér á landi á þessu ári. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hafi því farið úr því sem næst núlli í 2,5% nú.

Móti langtímastefnu um ívilnanir

Það þýðir þó að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa þarf að þrefaldast á næstu fimm árum ef markmiðið á að nást. Sóknaráætlunin sem var lögð fram í dag gerir meðal annars ráð fyrir átaki í því að efla innviði rafbíla. Jón Björn segir að opinber stuðningur verði að koma til við þá uppbyggingu og ljóst sé að ívilnanir fyrir vistvæna bíla þurfi að gilda einhver ár í viðbót á meðan þeir eru enn dýrari en hefðbundnir bílar. 

Hann bendir á að innflytjendur vistvænna bíla búi við mikla óvissu þar sem ákvarðanir um ívilnanir hafi verið teknar frá ári til árs. Þannig hefur til dæmis enn ekki verið lýst yfir hvort að rafbílar verði áfram virðisaukaskatts- og innflutningsgjaldafrjálsir á næsta ári. Verð slíkra bíla hækki um 1,5 milljónir króna ef ívilnanirnar falla niður.

„Þeir sem flytja inn þessa bíla og vinna í þessum geira hafa aldrei vitað fyrr en korteri í gamlársdag hvort ívilnanir gilda fyrir næsta ár á eftir. Þetta er eitt af því sem verður lögð mikil áhersla á í næstu aðgerðaáætlun, að það verði mótuð langtímastefna hvernig þetta eigi að vera svo menn viti að minnsta kosti í hvaða umhverfi þeir eru,“ segir Jón Björn.

Auðvelt að gera meira

Ekki liggur fyrir hversu miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum væri hægt að ná með að ná markmiðinu um 10% hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum, að sögn Jóns Björns.

Spurður að því hvort að það lýsi ekki metnaðarleysi af hálfu stjórnvalda að halda sig við fjögurra ára gamalt markmið í losun frá samgöngum orðar Jón Björn það sem svo að auðvelt væri að gera meira. Þar nefnir hann sérstaklega innviðina.

„Það er mjög dýrt að byggja innviði. Það eru engar tekjur af innviðunum til að byrja með því þú þarft að skaffa þá alla áður en bílarnir koma. Það hefur ekkert opinbert fé komið í uppbyggingu innviða. Þess vegna gerist það náttúrulega afar hægt að byggja upp innviði,“ segir hann.

Þar segir hann að hið opinbera gæti farið á undan og byggt hleðslustöðvar fyrir rafbíla við vinnustaði eins og Landspítalann eða aðrar stofnanir. Ríkið geti einnig lagt meiri áherslu á vistvæna bíla í innkaupastefnu sinni en fram að þessu hafi það ekki gert mikið af því.

Orka náttúrunnar hefur tekið skref í að setja upp hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla. Erfitt sé hins vegar að réttlæta slíka fjárfestingu ef hið opinbera kemur ekki á móti með framlag og menn hiki við það þegar þeir vita ekki hver stefnan um ívilnanir á að vera.

Þá sé nær engu fé varið í rannsóknar- og þróunarverkefni í endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum á Íslandi. Þar væri verulegt hægt að bæta í, sérstaklega þegar kemur að skipum.

„Ég vil alls ekki segja að ríkið sé ekki að gera eitthvað. Þetta er talsvert sem það er að leggja til með þessum ívilnunum. Helst vildum við auðvitað hafa metnaðarfyllri markmið af því að það er alveg hægt að gera þetta hraðar. En það er líka bara markaðurinn sjálfur. Þú sannfærir ekkert fólk um að skipta um bíl eða tækni einn, tveir og þrír,“ segir Jón Björn.

Fyrri fréttir mbl.is:

Kynna sóknaráætlun í loftslagsmálum

Engin ný markmið í samgöngum

Stefna Íslands afar óljós

Metanstöð á bensínstöði í Reykjavík.
Metanstöð á bensínstöði í Reykjavík. mbl.i/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert