Búast við löngum fundum alla helgina

Rio Tinto Alcan á álverið í Straumsvík.
Rio Tinto Alcan á álverið í Straumsvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samninganefndir í kjaradeilum starfsmanna Rio Tinto Alcan hafa fundað frá klukkan eitt í dag og enn er ekkert farasnið á mönnum. „Við sjáum ekki fyrir endann á þessu,“ segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður samninganefndar starfsfólks Rio Tinto Alcan. Hann segir að samningsaðilar hafi deilt um ýmis mál í dag og grynnkað á ágreiningsatriðum. Þó hafi aðalmálið, sem tengist verktöku hjá álverinu, ekki enn verið leyst.

Gylfi segir ljóst að menn muni ræða saman „alveg þangað til menn ná saman eða ekki,“ en á miðvikudaginn í næstu viku mun verkfall skella á ef ekki næst að semja fyrir þann tíma. Hafa forsvarsmenn álversins sagt að komi til þess sé líklegt að álverið verði ekki opnað að nýju.

Aðspurður hvort hann búist við löngum samningafundi í dag segir Gylfi að ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum, en að hann búist við að mikið verði fundað um helgina. Segir hann ekkert fararsnið á mönnum í húsnæði ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert