Ekki hægt að útskrifa af geðdeildum

Skjáskot

Í dag eru 14 sjúklingar á réttar- og öryggisgeðdeildum Landspítala. Tæplega helmingur þeirra sjúklinga eru búnir að ná nægilega góðri heilsu til að útskrifast af spítalanum en ónæg búsetuúrræði koma í veg fyrir það. Viðeigandi húsnæði fyrir þessa einstaklinga er ekki fyrir hendi í dag.

Þetta kemur fram í máli Guðmundar Sævars Sævarssonar, deildarstjóra öryggis- og réttargeðdeildarþjónustu Landspítala, í meðfylgjandi myndbandi þar sem hann kynnir starfsemi deildanna. 

„Öryggisgeðdeildin er í raun alltaf full,“ segir Guðmundur Sævar. „Hún rúmar átta sjúklinga en þar eru þó níu eins og staðan er í dag.“ Á réttargeðdeildinni eru nú fimm einstaklingar. „Það sem við óttumst alltaf er ekki þetta ofbeldi [sem er ástæða þess að margir eru á deildinni] heldur að þegar þeir koma út úr veikindum sínum þá átta þeir sig á því hvað þeir hafa gert. Þá kemur samviskubitið og depurðin. Og það sem maður er svo hræddur við er að þeir vilji hreinlega svipta sig lífi.“

Því er oft gripið til þess ráðs að vakta sjúklinginn allan sólarhringinn. „Þá víkur starfsmaður ekki frá honum.“ Þetta stöðuga eftirlit getur varað í jafnvel heilt ár. En markmiðið er að koma þeim aftur út í samfélagið, leiða fólkið þangað. 

Guðmundur segir að réttargeðdeildin sé þannig að ekki sé hægt að vísa neinum frá. „Helsta fyrirstaðan sem við lendum í á öryggis- og réttargeðdeildunum það er að búsetuúrræði fyrir okkar skjólstæðinga er af mjög skornum skammti. Hann segir að nú séu á þessum deildum 7-8 sjúklingar vegna þess að þeir komast ekki í önnur búsetuúrræði.

„Þannig að við erum að halda fólki inn á sjúkrahúsi vegna þess að við fáum ekki það húsnæði sem okkur vantar fyrir þessa einstaklinga,“ segir Guðmundur. „Þetta er alveg gífurlegt vandamál. Þetta er svo mikið vandamál að í mínum huga er nánast hægt að skilgreina þetta sem mannréttindabrot.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert