Mótmæla framgöngu Vigdísar

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hófu þingfund á því að gagnrýna ummæli sem Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, lét falla um forstjóra Landspítalans, en Vigdís sakaði hann um að hafa beitt sig andlegu ofbeldi. Þingmennirnir segja málið alvarlegt og er Vigdís hvött til að biðjast afsökunar.

Ummælin lét Vigdís falla í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Hún sagði að sótt væri að fjárlaganefnd „úr öllum áttum“ nú þegar verið væri að ákveða fjárveitingar til fjárlagaliða. Sakar hún meðal annars Pál Matthíasson, forstjóra Landspítala, um „andlegt ofbeldi“ en í forstjórapistli sínum gagnrýnir hann vinnu fjárlaganefndar.  

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þegar forstjóri Landspítalans mæti á fund þingsins til að greina því frá hvaða áhrif fjárhagsstaðan muni hafa á rekstur sjúkrahússins, þá eigi að taka á móti honum af kurteisi. 

„Hann á ekki að þurfa að sæta því að formaður fjárlaganefndar fari út með opinberar yfirlýsingar um andlegt ofbeldi og annað þess háttar,“ sagði Helgi og bætti við að framganga Vigdísar gagnvart Páli væri „öllu óþolandi. Þetta er ekki hægt virðulegur forseti,“ sagði Helgi. Menn eigi að geta rætt hluti  á málefnalegan hátt.

„En að sú umræða sé dregin niður á þetta plan og niður í þetta - ég vil leyfa mér að segja persónulega skítkast - það setur blett á þingið allt og störf þess,“ sagði Helgi og bætti við að hann mótmælti þessari framgöngu formannsins.

Vilja að forseti þingsins taka á málinu

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gerði einnig alvarlegar athugasemdir við framgöngu Vigdísar. Svandís sagði málið hefði verið rætt á fundi þingflokksformanna fyrr í dag. Þar gerðu bæði Svandís og Helgi Hjörvar athugasemdir við framkomu hennar. Svandís sagði ennfremur, að óskað hefði verið eftir því að forseti þingsins taki á málinu með viðunandi hætti.

„Það sem hér er um að ræða, virðingu þingsins alls, sem setur niður svo eftir er tekið þegar orð eru viðhöfð sem hér er vísað í. Ég óska eftir því að hæstvirtur forseti bregðist við hið fyrsta,“ sagði Svandís.

Vill að Vigdís biðjist afsökunar

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tók undir orð Helga og Svandísar. Hún sagði að það væri nauðsynlegt að forseti þingsins bregðist við með einhverjum hætti.

„Mér finnst það mjög alvarlegt þegar formaður fjárlaganefndar tjáir sig á þennan hátt. Mér finnst það bæði alvarlegt hvernig hún hefur væntanlega tjáð sig og hvernig hún útskýrir hvernig gestir á fundi tjá sig, og jafnframt því að hún tjáir sig um að þetta hafi verið andlegt ofbeldi. Mér finnst það svo alvarlegt að ég á eiginlega ekki til orð. Ég vil að forseti beiti sér í þessu máli á þann hátt að hann eigi orðastað við háttvirtan þingmann Vigdísi Hauksdóttur. Og ég vonast til þess að háttvirtur þingmaður biðji viðkomandi nefndargest afsökunar á orðum sínum,“ sagði Birgitta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert