Björgólfur fékk grænt ljós

Björgólfur Thor keypti Fríkirkjuveg 11 af Reykjavíkurborg árið 2007 fyrir …
Björgólfur Thor keypti Fríkirkjuveg 11 af Reykjavíkurborg árið 2007 fyrir 650 milljónir króna. Í kauptilboði kom fram að tilgangurinn með kaupunum væri að gera húsið aðgengilegt fyrir almenning en líkt og áður hefur komið fram er m.a. ætlunin að koma upp móttökusal, fundarherbergi og eldhúsi í kjallara. mbl.is/Sverrir

Byggingarfulltrúi hefur samþykkt að veita leyfi til framkvæmda vegna breytinga á Fríkirkjuvegi 11, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Í haust meinaði Nikulás Úlfar Másson byggingarfulltrúi Björgólfi að fjarlægja aðalstiga hússins.

Björgólfur kærði Reykjavíkurborg í síðasta mánuði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ákvörðunarinnar. Hann sagði að Nikulás hefði verið vanhæfur til að taka ákvörðun um að meina honum að fjarlægja stigann. Hann sagði ennfremur að persónuleg sjónarmið Nikulásar hefðu haft áhrif við meðferð málsins.

Nikulás lýsti sig vanhæfan til meðferðar málsins í dag og dró minnisblað sitt frá því í ágúst til baka.

Óskar Torfi Þorvaldsson yfirverkfræðingur tók sæti hans á fundinum undir þessum lið og var umsóknin samþykkt. Skal utanhúss- og lóðarfrágangi vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektum.

Í umsókninni segir, að sótt sé um leyfi til að innrétta veitinga- og ráðstefnusal fyrir 155 gesti þar sem sótt verður um tækifærisleyfi fyrir hvern viðburð í kjallara og á fyrstu hæð, að lækka gólfplötu í hliðarsal, taka niður svið í sal í sömu hæð og gólfplatan, koma fyrir salernum, koma fyrir matarlyftu/þjónustulyftu við eldhús og fólkslyftu frá kjallara upp á fyrstu hæð ásamt öðrum breytingum sem nefndar eru í byggingarlýsingu á teikningu og sótt er um leyfi til að innrétta íbúð á annarri hæð og í risi, fjarlægja stiga á milli fyrstu og annarrar hæðar, hann verður geymdur, breyta núverandi útitröppum við suðurgafl, koma fyrir lyftu vegna aðkomu hreyfihamlaðra og fjölga þakgluggum að austanverðu úr tveimur í sex stykki í húsinu á lóð nr. 11 við Fríkirkjuveg. 

Í september greindi mbl.is frá því, að byggingarfulltrúi hefði synjað um leyfi fyrir framkvæmdum og hafnað að tekinn yrði niður stigi í húsinu. Við þá afgreiðslu hélt byggingarfulltrúi því fram í minnisblaði að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu frá 2012.

Að sögn talsmanns Björgólfs láðist honum að geta þess að í millitíðinni hafði Minjavernd, sem tók við málum friðaðra húsa skv. nýjum lögum, samþykkt breytingarnar og sú samþykkt verið staðfest af forsætisráðuneytinu.

Framkvæmdir utan húss eru langt komnar og nú verður allt kapp lagt á að ljúka framkvæmdum innanhúss, með það að markmiði að opna húsið almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert