Lækka verðbólguspá borgarinnar

Frá borgarstjórn. Myndin er úr safni.
Frá borgarstjórn. Myndin er úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Í kjölfar verðbólguspár í þjóðhagsspá sem kom fram milli umræðna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar var ákveðið að lækka verðbólguspá hennar úr 4,9% í 3,2% og breyta jafnframt spá um gengisþróun og þróun launa til samræmis við spána. Það hefur í för með sér breytingar í tekju- og útgjaldaspá fyrir árið 2016.

Síðari umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 og fimm ára áætlun til ársins 2020 fór fram í borgarstjórn í dag. Gert er ráð fyrir 1.780 milljón króna hagræðingu á næsta ári eða um 1,6% að meðaltali en útgjöld til málaflokka aukast milli ára, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Umræðu um gjaldskrár var frestað til fundar borgarstjórnar 15. desember nk. en gert er ráð fyrir lækkun leikskólagjalda og því að Reykjavík verði áfram með lægstu leikskólagjöldin.  Um leið var tilkynnt að börnum sem fædd eru í mars 2014 verði boðið pláss á leikskólum þar sem laus rými eru fyrir hendi. Þá verður sett fram áætlun um endurnýjun gervigrasvalla.

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar (A og B hluta) á að vera jákvæð um 11 milljarða og rekstrarniðurstaða A-hluta 344 milljónir. Veltufé frá rekstri í A-hluta styrkist og verður rúmlega 7,7 milljarðar og veltufé frá rekstri á móti tekjum styrkist einnig og verður 7,7%. Handbært fé A-hluta í árslok verður sterkt og áætlað tæpir 9,3 milljarðar.

Borgarstjóri kynnti í ræðu sinni sameiginleg leiðarljós borgarráðs í hagræðingarvinnunni sem framundan er. Þau eru eftirfarandi:  

  • Grunnþjónusta: Staðinn verður vörður um grunnþjónustu við íbúa en leitað hagkvæmari leiða til að veita hana.
  • Gjaldskrár: Staðinn verður vörður um hagsmuni barnafjölskyldna. Gjaldskrám vegna þjónustu leikskóla, grunnskóla og frístund verður áfram stillt í hóf.
  • Starfsmenn: Fjöldi stöðugilda verði takmarkaður og hægt á nýráðningum eftir því sem kostur er.
  • Húsnæði: Stefnt verði að betri nýtingu húsnæðis og samnýtingu húsnæðis fyrir starfsemi og þjónustu borgarinnar, með uppsögn leigusamninga og fækkun fermetra í notkun.
  • Innkaup: Stefnt verði að aukinni hagkvæmni í innkaupum, með aukinni samræmingu, rammasamningum og notkun örútboða þvert á svið og stofnanir borgarinnar í þeim vöru- og þjónustuflokkum þar sem tækifæri eru til að ná fram sparnaði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert