Spáin óbreytt frá því í gær

„Spáin hefur í sjálfu sér lítið breyst. Það er rétt að byrja að snjóa núna í Keflavík. Þetta byrjar fyrst hérna á suðvesturhorninu, og færist svo inn á landið, s.s. færist norðaustur yfir landið í dag. Þannig að þegar fólk er að fara í vinnuna þá er væntanlega orðið hvasst með snjókomu hér á suðvesturlandi og eins og var talað um í gær verður veðrið í hámarki einhvern tímann um hádegi og svona fram undir kaffi.“

Þetta segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um stöðu mála en búist er við hvassviðri eða stormi með snjókomu og skafrenningi í dag. „Þetta er bara bylur getum við sagt; snjóhríð og skafbylur,“ segir Haraldur.

Hann segir að þar sem spáin hafi lítið breyst frá því í gær gildi allar viðvaranir en Veðurstofan hefur m.a. varað fólk við að vera á ferð nema það nauðsynlega þurfi. „Menn þekkja það sem hafa lent í svona veðri að það er leiðinlegt að fara af stað og festast svo útaf öðrum bílum, jafnvel þótt bíllinn sé ágætur,“ segir Haraldur en viðbúið sé að götur muni stíflast ef fólk fer af stað á illa útbúnum bílum.

Á myndbandinu hér fyrir ofan má sjá hvernig umhorfs var á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar kl. 4.30 í morgun, en þá var aðeins farið að bæta í vind á höfuðborgarsvæðinu.

Vindaspá kl. 13 í dag.
Vindaspá kl. 13 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert