Bíða þolinmóð eftir aðstoð í rútunni

Ferja þarf fólkið úr rútunni á nærliggjandi hótel.
Ferja þarf fólkið úr rútunni á nærliggjandi hótel. Mynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Björgunarsveitin Víkverji í Vík í Mýrdal er þessa stundina á leið út úr húsi að aðstoða bílstjóra og hátt í þrjátíu farþega í rútu sem er stopp í Mýrdal. Afar blint er á svæðinu, vegurinn flugháll og kemst bílstjóri rútunnar ekki lengra. 

Átta menn fara á staðinn á tveimur ökutækjum og verður fólkið ferjað úr rútunni á nærliggjandi hótel. Stórhríð er í Vík í Mýrdal. Við Reynisfjall eru 16 m/sek en vindur fer upp í 38 m/sek í hviðum. Lítil umferð er á svæðinu, enda ekkert ferðaveður. 

Uppfært kl. 15.45

Engin hætta er á ferðum hjá hópnum sem er fastur í rútu í Mýrdal. Í rútunni er hópur erlendra ferðamanna og bílstjóri. Ákveðið var að flýta för hópsins til að vera á undan veðrinu sem spáð hafði verið en þegar rútan átti aðeins nokkur hundruð metra ófarna að hótelinu komst hún ekki lengra.

Bílstjóri rútunnar segir í samtali við mbl.is að mikill snjór hafi safnast saman í brekkunni sem liggur upp að hótelinu. Fólksbílar festust í henni fyrr í dag og þá skóf í skafla. Gerði hann tilraun til að komast upp brekkunna en varð að snúa við vegna færðar og óska eftir aðstoð björgunarsveitar.

Ekkert skyggni er á svæðinu og hefur veðrið versnað frá því að hópurinn kom á svæðið. Þó aðeins séu nokkur hundruð metrar að hótelinu er veðrið svo slæmt að hópurinn getur ekki gengið þangað. Segir bílstjórinn að rétt glitti í hótelið.

Hvasst er á svæðinu og tekur aðeins í rútuna að sögn bílstjórans. Hópurinn bíður rólegur enda engin hætta á ferðum. Allir í rútunni áttu pantaða gistingu á hótelinu í kvöld.

Upp­lýs­ing­ar frá Vega­gerðinni: 

Vax­andi vind­ur og versn­andi veður al­mennt á land­inu upp úr kl. 14. Und­ir Eyja­fjöll­um og í Mýr­dal verður ofsa­veður frá kl. 14 til 18 og hviður allt að 40-50 m/​s. Eins í Öræf­um frá kl. 14 til 20 og hviður um og yfir 50 m/​s á þeim slóðum.

Stór­hríðarveður aust­an­lands með kvöld­inu. Skafrenn­ing­ur um allt norðan­vert landið og eins of­an­hríð. Höfuðborg­ar­svæðið og suðvest­an­vert landið virðist ætla að sleppa bet­ur, en samt all­hvasst síðdeg­is og í kvöld og víðast skef­ur lausa­mjöll­ina. Eins ofan­koma um tíma, en minni­hátt­ar þó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert