Andlát: Erlingur B. Thoroddsen

Erlingur B. Thoroddsen
Erlingur B. Thoroddsen

Erlingur B. Thoroddsen, hótelstjóri Hótels Norðurljósa á Raufarhöfn, lést aðfaranótt 3. desember sl. á Landspítalanum á Hringbraut, 67 ára að aldri, eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Erlingur fæddist 15. júlí 1948 á Patreksfirði og ólst þar upp, sonur Braga Ó. Thoroddsen, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar í Barðastrandarsýslu, og Þórdísar Haraldsdóttur Thoroddsen húsmóður, sem bæði eru látin. Þau eignuðust sex börn og lifa þau öll bróður sinn.

Eftirlifandi eiginkona Erlings er Ágústa Valdís Svansdóttir snyrtifræðingur og saman eignuðust þau dótturina Rakel Fríðu. Fyrir átti Erlingur synina Arnar Erlingsson og Þórgný Thoroddsen og kjörsoninn Elías. Ágústa á tvö börn af fyrra hjónabandi; Michael Frank Rúnar Chiodo og Kareninu Kristínu Chiodo.

Erlingur lauk landsprófi á Núpi á Dýrafirði og fór þaðan í Samvinnuskólann á Bifröst og síðan í framhaldsnám í Edinborg.

Heim kominn hóf hann störf hjá Eimskip og vann síðar bókhaldsstörf hjá Þvottahúsinu Fönn, Olís og Sundi. Eftir það fór Erlingur í eigin atvinnurekstur, annaðist leiðsögn ferðafólks og rak um árabil gistiheimili í Reykjavík ásamt þáverandi eiginkonu sinni. Í Reykjavík sinnti hann ýmsum félagsstörfum, m.a. fyrir Björgunarsveitina Ingólf.

Árið 1996 flutti Erlingur til Raufarhafnar ásamt Ágústu eiginkonu sinni til að reka Hótel Norðurljós. Síðan þá hafa þau verið rekstraraðilar hótelsins, sem er í eigu Norðurþings. Meðfram hótelstörfum sinnti hann bókhaldsvinnu og framtalsgerð og tók þátt í margvíslegum félagsmálum innan sveitar og í héraði.

Erlingur var áhugamaður um stjórnmál og ötull stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, gegndi trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og sat marga landsfundi hans. Hann átti sæti í menningarnefnd Raufarhafnarhrepps, var mikill áhugamaður um fugla og ljósmyndun og hafði yndi af fjallgöngu og útivist.

Hann átti frumkvæðið að Heimskautsgerðinu á Raufarhöfn, The Arctic Henge, sem frá árinu 2008 hefur laðað til sín fjölda ferðamanna. Þá var Erlingur fréttaritari og ljósmyndari Morgunblaðsins á Raufarhöfn um árabil.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert