Diddú kom af fjöllum

Diddú er þriðji stormurinn til að vera nefndur eftir íslenskri …
Diddú er þriðji stormurinn til að vera nefndur eftir íslenskri söngkonu.

„Þetta er eitthvað sem var sett fram í hálfkæringi, þetta er nokkurra vikna gömul hugmynd sem gekk út á það að finna kerfi til að nefna þessi óveður,“ segir Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is um kassamerkið #Diddu sem tístarar  Twitter nota óspart þessa stundina.

Hugmyndin gekk út á að finna kerfi til að nefna óveður og fannst Stefáni tilvalið að nefna þau í höfuðið á íslenskum söngkonum. Fyrsta óveðrið fékk nafnið Andrea (Gylfadóttir), það næsta Björk (Guðmundsdóttir) og þriðja Diddú, í höfuðið á Sigrúnu Hjálmtýsdóttur.

„Ég held að eina áhyggjuefnið sé að við verðum uppiskroppa með nöfn,“ segir Stefán. Stafurinn e er næstur í stafrófinu og segir hann að þar komi nokkrar til greina.

„Emilíana (Torrini) ef veðrið er ítalskt og óútreiknanlegt, svo gæti það fengið nafnið Ellen (Kristjánsdóttir) ef það kemur nálægt jólunum. Ef lægðin á uppruna sinn í Færeyjum heitir það auðvitað Eivör en Ellý Vilhjálms myndi síðan sameina þetta allt saman.“

Stormurinn hræðist nöfnu sína

Diddú frétti sjálf af nafngift stormsins í dag og segist hún hreinlega hafa komið af fjöllum. Blaðamaður getur ekki stillt sig um að skjóta því að að nafna hennar hafi hins vegar komið af hafi en Sigrún lætur aulahúmorinn eins og vind um eyru þjóta og heldur áfram:

„Þetta kom mér mjög á óvart en svo frétti ég að þetta hefði undanfarið verið nefnt í höfuðið á söngkonum. Það eina sem ég vona er að nafn mitt beri þá gæfu í þessum ofsa að veðrið valdi ekki miklum usla,“ segir Diddú.

Hún kveðst vera að nýta veðrið til jólabaksturs á heimili sínu í Mosfellsdal og að það væsi ekki um hana svo lengi sem rafmagnið haldist á, bakstursins vegna.

„Ég er reyndar ekki farin að sjá til þessa veðurs ennþá, það er greinilegt að það hræðist mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert