„Ég veit ekki af hverju hann segir þetta“

Kast­rijot og Xhul­ia Pepoj
Kast­rijot og Xhul­ia Pepoj Ljósmynd/DV

Arn­dís A.K. Gunn­ars­dótt­ir, réttargæslumaður Pepoj-fjölskyldunnar, sem flutt var úr landi í síðustu viku, þvertekur fyrir að hafa ráðlagt henni að falla frá kæru vegna úrskurðar Útlendingastofnunar í máli fjölskyldunnar.

Fjölskyldufaðirinn, Kast­rijot Pepoj, sagði í kvöldfréttum RÚV ráðleggingar lögmanns fjölskyldunnar vera einu ástæðuna fyrir því að þau ákváðu að falla frá mállinu og óska eftir að vera flutt aftur til Albaníu. Sonur Kastrijot, Kevi, þjáist af slímseigjusjúkdómi sem er lífshættulegur og hefur höfnun Útlendingastofnunar á hælisumsókn fjölskyldunnar vakið mikla athygli og reiði.

Arndís segir staðhæfingar Kastrijot um ráðleggingar hennar ekki aðeins kolrangar heldur snúa þveröfugt við það sem raunverulega hafi farið þeirra á milli.

„Tvívegis talaði ég þau ofan af því að draga til baka. Við birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar tóku þau sér fimmtán daga frest til að ákveða með kæru. Ég hvatti þau eindregið til að kæra þar sem ég vissi að Útlendingastofnun myndi aldrei taka stefnumarkandi ákvörðun. Á þrettánda eða fjórtánda degi höfðu þau samband við mig og sögðu: Ókei, við ætlum að kæra,“ segir Arndís.

„Öðru sinni hafa þau samband við og segjast vilja draga tilbaka og fara burtu strax. Ég talaði þau ofan af því. Þetta er kolrangt og ég veit ekki af hverju hann segir þetta.“

Arndís segir Kastrijot hafa komið til hennar margsinnis og spurt út í möguleika þeirra en hún hafi eðlilega ekki getað svarað neinu, svona mál hafi ekki verið afgreitt af kærunefndinni áður og ekki hafi verið hægt að vita fyrirfram hvaða ákvörðun hún tæki. Hún hafi hinsvegar komið því á framfæri við fjölskylduna að hún ætti meiri möguleika á að fá hæli en aðrir Albanir.

„Ég útskýrði fyrir þeim að enginn Albani hefði fengið hæli hér á Íslandi en að þeirra mál væri svolítið ólíkt. Ég útskýrði það margoft, ég las upp fyrir þau lagaákvæðið sem gaf þeim smugu, þetta sem hefur verið margrætt um dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna heilbrigðisástæðna - sérstaklega þegar barn á í hlut.“

Aðspurð hvort um misskilning vegna túlkunar hafi verið að ræða segir Arndís svo ekki vera. Faðir annars langveiks barns frá Albaníu, drengs með hjartagalla sem einnig hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, hafi túlkað fyrir fjölskylduna og hann tali góða ensku.

Kevi og stóra systir hans Klea.
Kevi og stóra systir hans Klea. Photo: DV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert