Jöfnuður forsenda raunverulegs frelsis

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

„Frelsishugmyndin er flókin og margþætt. Í íslenskri stjórnmálaumræðu hefur frelsið oft verið skilgreint með þröngum hætti, út frá hagsmunum fárra en ekki endilega út frá hagsmunum fjöldans,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag.

„Stóru átakamálin í stjórnmálum liðins árs snúast hins vegar ekki síst um frelsi allra. Ekki um verslunar- og viðskiptafrelsi heldur frelsi í víðtækari skilningi þess orðs, frelsi fólks í hnattvæddum heimi. Frelsi fólks snýst meðal annars um frelsi almennings á Íslandi til að búa við mannsæmandi kjör,“ segir Katrín. Það snúist ekki um frelsi í þröngum skilningi heldur frelsi til þess að fá að þroska hæfileika sína og lifa eins farsælu lífi og mögulegt sé. Leggur hún ekki síst áherslu á mikilvægi þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Stjórnarandstaðan hafi lagt til tillögur þess efnis í tengslum við fjárlagaumræðuna en þær hafi verið felldar.

„Það er ljóst að ýmsir í þessum hópi búa við mjög bág kjör, þurfa jafnvel að lifa á undir tvö hundruð þúsund krónum á mánuði. Það ætti að vera metnaðarmál okkar á nýju ári að tryggja þeim það frelsi að geta lifað af sínum ráðstöfunartekjum. Það er vonandi að samstaða náist um það og eins um að tryggja grunnþjónustu fyrir samfélagið allt. Það verður ekki gert með því að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og draga úr tækifærum fólks til menntunar eins og raunin hefur orðið á þessu ári,“ segir Katrín ennfremur og bætir við:

„Lærdómur allra stjórnmálamanna ætti að vera að hlusta og skynja þá samstöðu sem oft skapast með almenningi í ólíkum löndum. Samstöðu um réttlátar breytingar og viðbrögð við flóknum kringumstæðum. Kerfið má aldrei verða mennskunni yfirsterkara þannig að stjórnmálamenn hugsi störf sín fyrst og fremst í kringum kerfi sem einhvern tíma var smíðað af mennskum höndum. Kerfið á að þjóna fólkinu og þar þurfa stjórnmálamenn að hlusta eftir röddum almennings. Þær segja okkur að fólk vill breytingar, í átt til réttlátara og betra samfélags þar sem öllum er tryggt frelsi og farsæld. Þær segja okkur að aukinn jöfnuður sé forsenda raunverulegs frelsis. Hlustum á þær á nýju ári.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert