Andlát: Magnús Jónatansson

Magnús Jónatansson
Magnús Jónatansson

Magnús Jónatansson, smiður og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri á nýársdag, á 73. aldursári.

Magnús fæddist á Akureyri 4. mars 1943. Foreldrar hans voru Bergþóra Lárusdóttir frá Heiði á Langanesi og Jónatan Magnússon vélstjóri, frá Ólafsfirði.

Magnús var næstelstur fimm systkina, eftirlifandi eru Jóna Þrúður og Sævar en látin eru Alda og Björgvin Smári.

Magnús lærði skipasmíðar hjá Skipasmíðastöð KEA. Lengi starfaði hann við smíðar en síðar sem húsvörður við Síðuskóla á Akureyri þar til hann lét af störfum fyrir nokkrum árum.

Magnús var afreksmaður í íþróttum og alla tíð félagi í íþróttafélaginu Þór á Akureyri. Hann lék knattspyrnu með Þór og Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA) og var fyrirliði ÍBA-liðsins þegar það varð bikarmeistari árið 1969. Magnús lék fimm A-landsleiki fyrir Ísland á árunum 1965 til 1970. Hann lék einnig körfuknattleik með Þór.

Eftir að hann lagði keppnisskóna á hilluna starfaði Magnús í mörg ár sem knattspyrnudómari og -þjálfari. Hann hlaut fjölmargar viðurkenningar, þar á meðal gull- og silfurmerki Þórs, heiðursviðurkenningu Íþróttabandalags Akureyrar og silfurmerki Knattspyrnusambands Íslands.

Sambýliskona Magnúsar var Sigríður Jósteinsdóttir en þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Alda Sif og Jónatan Þór. Fyrir átti Magnús börnin Jónínu Kristínu og Magnús Þór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert