Stóraukin útgjöld vegna öldrunar

Þorsteinn Víglundsson segir að allar forsendur séu fyrir því að …
Þorsteinn Víglundsson segir að allar forsendur séu fyrir því að árið 2016 geti orðið mjög farsælt fyrir Íslendinga.

Ætla má að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 40 til 60 milljarða króna á ári vegna öldrunar íslensku þjóðarinnar. Þetta kom fram á fundi Samtaka atvinnulífsins sem var haldinn í hádeginu.

Öldrun þjóðarinnar kosta ríkissjóð aukalega 2  til 3% af landsframleiðslu á næstu 15 árum. Þegar lífeyrisskuldbindingum er bætt við munu viðbótarútgjöld vegna öldrunarinnar nema 4% af landsframleiðslu.

Aldraðir verða 20% af þjóðinni

Hlutfall Íslendinga sem eru 70 ára og eldri er í dag nálægt 10% af þjóðinni en á næstu 25 árum mun það nálgast 20%. „Þessu fylgir stóraukinn kostnaður í heilbrigðiskerfinu og almannatryggingum," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

„Þetta er sambærileg áskorun og aðrar Evrópuþjóðir eru að glíma við nema að í okkar tilviki er þessi breyting en hraðari,“ bætir hann við. „Þetta mun fela í sér mikla áskorun fyrir ríkisútgjöldin.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA, var á …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA, var á meðal fundargesta.

Fólki með erlent ríkisfang fjölgar ört

Vegna öldrunar þjóðarinnar myndast skortur á starfsfólki ef ætlunin er að hagkerfið haldi áfram að vaxa um 2,5% ári.  Þessi þróun mun kalla á að erlendum starfsmönnum fjölgi.

Fólk með erlent ríkisfang sem býr á Íslandi er núna 8% af heildar mannfjölda þjóðarinnar. Árið 2030 er reiknað með því að hlutfallið verði komið í 14% og árið 2040 verður það komið í 20%.

Aldrei meiri kaupmáttur 

Á fundinum kom fram að árið 2016 muni einkennast af kröftugum vexti á nær öllum sviðum atvinnulífsins. Kaupmáttur sé meiri en nokkru sinni, bjartsýni neytenda hafi aukist og einkaneysla aukist hratt. Þetta stafi af mikilil aukningu útflutningstekna, sér í lagi vegna kraftmikillar ferðaþjónustu.

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður SA, og Björgólfur Jóhannsson, formaður SA.
Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður SA, og Björgólfur Jóhannsson, formaður SA.

Næstmesti hagvöxturinn á Íslandi

Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir því að Ísland muni áfram verma annað sæti yfir mestan hagvöxt á meðal OECD-ríkjanna. Aðeins er gert ráð fyrir meiri hagvexti á Írlandi árið 2016.

Verðbólga hefur haldist lág vegna ytri skilyrða og styrkingar krónunnar en miklar launahækkanr eru farnar að segja til sín, samkvæmt því sem kom fram á fundinum. Halda verður vel á málum í hagstjórninni til að koma í veg fyrir of mikla þenslu.

Mikilvægustu verkefni ársins 2016 verða næstu skref við losun hafta, endurskoðun peningastefnunnar og umbætur á vinnumarkaði. Einnig mun reyna mjög á aðhald ríkisfjármála.

Mikil fjölgun 75% öryrkja árið 2015

Á fundinum kom fram að taka þurfi á vaxandi örorkubyrgði af ábyrgð og festu. Þannig er örorka ungs fólks á Íslandi mun meiri en gengur og gerist í nágrannalöndunum.

Fjölgun þeirra sem fengu úrskurðað 75% örorku jókst mikið á síðasta ári, eða úr 1.235 einstaklingum í 1.450. Þetta er í fyrsta sinn sem fjöldinn fer yfir 1.400 síðan árið 2009 þegar 1.528 einstaklingar voru metnir með 75% örorku.

Mæta þurfi hækkandi lífaldri með hækkun eftirlaunaaldurs og einnig horfa til umbóta í menntakerfinu. Þannig gæti stytting námstíma hjálpað Íslendingum við að mæta hækkandi aldri þjóðarinnar en jafnframt stuðlað að minna brottfalli og minna nýgengi örorku.

Hægt að minnka vaxtakostnað um 33 millljarða

Þorsteinn greindi frá því að vaxtakostnaður ríkisins muni minnka um 33 milljarða króna ef til niðurgreiðslu skulda og sölu ríkiseigna kemur. Á síðasta ári nam hann 77 milljörðum króna en núverandi áform ríkisins hljóða upp á 66 milljarða.

Samkvæmt tillögum SA væri hægt að minnka hann niður í 33 milljarða króna með því til dæmis að greiða niður skuldir, selja banka sem eru í eigu ríkisins og aðrar ríkiseignir á borð við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Landsnet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert