Unnið að því að bjarga eldisfisknum

Þessi mynd var tekin á vettvangi í kvöld.
Þessi mynd var tekin á vettvangi í kvöld. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Eldur kom upp í húsnæði Stofnfisks við Kalmanstjörn rétt fyrir utan Hafnir á Reykjanesi um klukkan 18  í kvöld. Að sögn Davíðs Harðarsonar, stöðvarstjóra Stofnfisks við Kalmanstjörn, er búið að ráða niðurlögum eldsins en mjög greiðlega gekk að slökkva hann.

„Eldurinn var staðbundinn í enda hússins en nú er verið að vinna í því að bjarga eldisfisknum í húsinu.“

Hann segir að enn sé ekki unnt að ákvarða hversu mikið tjón varð að eldsvoðanum en unnið er að því að laga vatnslagnir sem fóru í hitanum. Húsið sem eldurinn kom upp í er eldishús og í því eru tvö ker með um 15.000 eldisfiskum. „Það virðist allt hafa sloppið mun betur en á horfðist í fyrstu.“

Davíð segir eldinn hafa verið staðbundinn í öðrum enda hússins og ekki náð að læsa sér almennilega í húsið. Enginn var staddur inni í húsinu þegar eldurinn braust út en það var næturvörður sem kallaði slökkviliðið út. „Hann kom hérna að og sá eldinn upp um þaklúgu á húsinu.“ Á morgun munu aðilar koma og rannsaka upptök eldsins.

Á vefsíðu Stofnfisks segir að fiskeldisstöðin við Kalmanstjörn á Reykjanesi sé önnur stærsta laxeldisstöðin hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert