Viðurkenna vandann og takast á við hann

Verulega hefur dregið úr fjölgun öryrkja á síðustu misserum og …
Verulega hefur dregið úr fjölgun öryrkja á síðustu misserum og árum. Úrræðum til að koma fólki í virkni og vinnu hefur fjölgað mikið. mbl.is/Styrmir Kári

Sífellt fleira fólk á vinnualdri byggir framfærslu sína á örorku en ef maður segir að fjölgun öryrkja sé vandamál er maður sakaður um að vera uppfullur af mannvonsku,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður um fjölgun einstaklinga á örorkubótum á fundi Sambands eldri sjálfstæðismanna. Viðurkenna þyrfti göt sem eru til staðar í kerfinu, að hans mati.

Í samantekt velferðarráðuneytisins um þróun örorku á Íslandi undanfarin ár kemur fram að öryrkjum fjölgaði um 29% frá nóvember 2005 til nóvember 2015. Frá nóvember 2010 til nóvember 2015 hefur þeim þó aðeins fjölgað um 9%. Mest hefur fjölgunin verið á aldursbilinu 65-66 ára.

Fækkar í yngsta hópi öryrkja

Á fundinum lagði Bjarni áherslu á að vandinn yrði viðurkenndur og tekist yrði á við hann. Ná þyrfti samkomulagi við Öryrkjabandalagið og aðra hagsmunaaðila um að byggja á starfsgetumati en ekki læknisfræðilegri örorku sem grundvelli örorkubóta.

Frá árinu 2010 hefur fjölgun öryrkja verið stöðug en þeim hefur fjölgað um 1,7-2,1% á milli ára. Það hægði þó á þeirri fjölgun frá nóvember 2014 og nóvember 2015 en þá fjölgaði einungis um 1,3%.

Þá hefur hutfall karla og kvenna lítið breyst milli ára en konur eru 60% öryrkja og karlar 40%. Á meðal kvenna fjölgaði öryrkjum um 30% á tímabilinu nóvember 2005-2015 en mest var fjölgunin á aldursbilinu 65-66 eða um 57%. Karlkyns öryrkjum fjölgaði sömuleiðis mest á aldursbilinu 65-66 ára eða um 59%.

Körlum á aldrinum 20-29 fjölgaði hins vegar um 40% á meðan kvenkyns öryrkjum á sama aldursbili fækkaði um 9% á sama tíma.

Mjög hefur þó fækkað í yngsta hópi öryrkja, frá 16-19 ára, á tímabilinu 2005-2015. Í nóvember 2015 voru þeir þó 156 talsins. Fækkunin á sér að hluta til skýringu í lagabreytingu sem tók gildi árið 2010 þar sem lágmarksaldur örorkulífeyrisþega var færður úr 16 ára í 18.

„Þetta má skýra að hluta til með því að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að virkja fólk nægilega vel,“ sagði Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í samtali við mbl.is um ástæður þess að öryrkjum fer fjölgandi samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu.

Hún telur ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á fjármunum kunna að vera eina skýringu sem liggi að baki. Tók hún fram að Öryrkjabandalag Íslands hefði engan hag af fjölgun öryrkja og þætti fjölgunin mjög miður.

Úrræðum fjölgað mikið

„Verulega hefur dregið úr fjölgun öryrkja á síðustu misserum og árum. Úrræðum til að koma fólki í virkni og vinnu hefur fjölgað mikið og er rík áhersla lögð á fjölbreytt virkniúrræði, starfsþjálfun, o.s.frv.,“ segir í upplýsingum frá velferðarráðuneytinu varðandi leiðir til að stemma stigu við fjölgun öryrkja.

Þá hefur ráðuneytið gert samning við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um gerð könnunar sem felst í því að greina aðstæður ungs fólks í hópi öryrkja og meta hvort koma megi í veg fyrir að ungt fólk verði öryrkjar með markvissum forvarnaraðgerðum og tímanlegri þjónustu og að kanna hvað einstaklingarnir sjá sjálfir sem mögulega lausn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert