Verði heimilt að leigja út í 90 daga

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Rósa Braga

Samþykki Alþingi breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram á Alþingi í dag verður einstaklingum heimilt að leigja út heimili sitt og aðra fasteign sem hann hefur til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári án þess að sækja um rekstrarleyfi líkt og krafist er skv. núgildandi lögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytinu en í kjölfar stóraukins fjölda erlendra ferðamanna hefur það orðið æ algengara að einstaklingar leigi út heimili sín í svokallaðri heimagistingu.

Samkvæmt frumvarpinu verða einu kröfurnar sem settar eru fyrir útleigu þær að viðkomandi skrái sig hjá sýslumanni, greiði skráningargjald og að fasteignin uppfylli brunakröfur. Samhliða mun umhverfis- og auðlindaráðherra breyta reglugerð um hollustuhætti þannig að skráðum heimagistingaraðilum dugi að tilkynna um útleigu og sæta eftirliti hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar, í stað þess að sækja um starfsleyfi.

Þá verða tekin upp númer sem skráðum heimagistingaraðilum sem og öðrum rekstrarleyfishöfum verður skylt að nota í allri markaðssetningu, þar á meðal á vefsíðum og auglýsingum. Í tilkynningunni segir að þetta muni gera eftirlit með gisti- og veitingaiðnaðinum auðveldara auk þess að styrkja neytendavernd þeirra sem kaupa gistiþjónustu hér á landi.

„Eitt af markmiðum frumvarpsins er einföldun regluverks en jafnframt er því ætlað að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Eftirlit með heimagistingu mun verða á hendi sýslumanna sem hafa heimild til að beita nýjum úrræðum svo sem afskráningu, synjun um endurskráningu og eins að leggja stjórnvaldssektir á þá einstaklinga sem stunda útleigu án skráningar.

Meðal annarra breytinga í frumvarpinu sem miða að einföldun regluverks má nefna að kveðið er á um að starfsemi veitingastaða án áfengisveitinga verði einungis háð leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi. Þannig mun leyfisskyldan falla niður og fyrir vikið verður starfsumhverfið mun einfaldara.

Jafnframt verða þau rekstrarleyfi sem enn þarf að afla, þ.e. fyrir veitingastaði sem bjóða upp á áfengi og fyrir umfangsmeiri gististaði en heimagistingu, gerð ótímabundin. Í núgildandi kerfi eru rekstrarleyfi veitt til 4 ára í senn. Eru þessar breytingar í samræmi við tillögu stýrihóps Ferðamálastofu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu.

Markmið frumvarpsins er þannig bæði að uppfæra löggjöfina til samræmis við breyttan veruleika og viðurkenna með því tilvist deilihagkerfisins ásamt því að stuðla að verulegri einföldun regluverks í ferðaþjónustu, segir í tilkynningunni. 

Í kjölfar stóraukins fjölda erlendra ferðamanna hefur það orðið æ …
Í kjölfar stóraukins fjölda erlendra ferðamanna hefur það orðið æ algengara að einstaklingar leigi út heimili sín í svokallaðri heimagistingu. Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert